Frá rektor Háskóla Íslands og forstjóra Landspítala - háskólasjúkrahúss:
Háskóli Íslands og Landspítali - háskólasjúkrahús fagna þeirri ákvörðun heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra að stuðla að fjölgun nema við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.
Með stuðningi stjórnvalda var háskólaráði Háskóla Íslands gert kleift að samþykkja á fundi sínum 19. október 2006 fjölgun nema í hjúkrunarfræði þegar á þessu skólaári. Hægt verður að fjölga um 25 nemendur þannig að 105 hjúkrunarfræðinemar geti hafið nám á vormisseri 2007 að loknum samkeppnisprófum í desember.
Framkvæmdastjórn LSH fjallaði á fundi 17. október um möguleika spítalans á því að taka við fleiri nemum í hjúkrunarfræði og samþykkti að hann væri reiðubúinn til þess.
Það er fagnaðarefni að fleiri nemendur fái tækifæri til þess að nema hjúkrunarfræði. Þannig er hægt að mæta sívaxandi þörf fyrir hjúkrunarfræðinga sem hefur skapast meðal annars vegna fjölgunar sjúklinga og væntinga um aukinn árangur, öryggi og fjölbreytni í heilbrigðisþjónustu.
Kristín Ingólfsdóttir
Magnús Pétursson
Magnús Pétursson