Sólveig Jónsdóttir sálfræðingur varði doktorsritgerð sína í klínískri taugasálfræði við læknadeild Ríkisháskólans í Groningen (Rijksuniversiteit Groningen) í Hollandi þann 27. 2006.
Doktorsritgerðin fjallar um athyglisbrest með ofvirkni og tengsl þess við fylgikvilla og kyn og nefnist á ensku "ADHD and Its Relationship to Comorbidity and Gender".
Andmælendur við vörnina voru: Dr. Dirk J. Bakker prófessor, dr. Ruud B. Minderaa prófessor, dr. Jaap J. van der Meere prófessor, dr. Hanna Swaab-Barneveld prófessor, dr. Marina Schoemaker, dr. Joke M. Spikman og dr. Marijn W. Luijpen.
Doktorsritgerðin byggist á fjórum rannsóknum sem fjalla um
a) kynjamun á einkennum um athyglisbrest og ofvirkni og aðrar geðraskanir í heilbrigðu íslensku þýði,
b) áhrif sértækrar málþroskaröskunar á vinnsluminni barna með ADHD,
c) sambandið á milli taugasálfræðilegs mats á stjórnunarfærni (executive function) og hegðunarmats foreldra og kennara á einkennum athyglisbrests, ofvirkni og hvatvísi og
d) áhrif taugaraförvunar gegnum húð (transcutaneous electrical nerve stimulation, TENS) á vitsmunastarf, hegðun og sveifluna á milli hvíldar og virkni í börnum með ADHD.
Megin niðurstöður fyrstu rannsóknarinnar eru þær, að heilbrigðir íslenskir drengir eru metnir með marktækt meiri einkenni um ofvirkni/hvatvísi og árásargirni (aggression) heldur en stúlkur bæði af foreldrum og kennurum.
Drengir eru einnig að mati kennara með marktækt meiri einkenni um athyglisbrest heldur en stúlkur, en að mati foreldra er ekki kynjamunur á einkennum um athyglisbrest.
Ekki kom fram marktækur kynjamunur á einkennum um hegðunarerfiðleika, kvíða, þunglyndi, líkamlegar umkvartanir, einhverfu, einangrandi hegðun eða námserfiðleika. Þau hegðunareinkenni, sem best spáðu fyrir háu mati á einkennum um athyglisbrest hjá drengjum og stúlkum voru námserfiðleikar, kvíði og þunglyndi. Þau hegðunareinkenni, sem best spáðu fyrir háu mati á einkennum um ofvirkni/hvatvísi voru hins vegar árásargirni og hegðunarerfiðleikar.
Mun meira samræmi var á milli hegðunarmats foreldra og kennara hvað varðaði drengi heldur en stúlkur.
Kynjahlutfall barna með alvarleg einkenni um ADHD var 3 drengir á móti 1 stúlku að mati foreldra, en 9 drengir á móti 1 stúlku að mati kennara.
Sú ályktun er dregin, að ein hugsanleg ástæða þess að svo mun fleiri drengir en stúlkur eru greindir með ADHD, sé sú, að þeim sé frekar vísað til greiningar vegna þess að þeir eru almennt árásargjarnari og fyrirferðarmeiri en stúlkur.
Einnig gæti ein hugsanleg ástæða verið sú að vegna minna samræmis á hegðunarmati foreldra og kennara hvað stúlkur varðar, þá sé þeim síður vísað til greiningar á ADHD. Í annarri rannsókninni er fjallað um áhrif sértækrar málþroskaröskunar á vinnsluminni barna með ADHD, en kenningar hafa verið settar fram um að skert vinnsluminni sé einkennandi fyrir röskunina.
Í rannsókninni voru bornir saman þrír hópar barna, einn hópur var með ADHD og sértæka málþroskaröskun, annar hópur var með ADHD og eðlilegan málþroska og þriðji hópurinn var samsettur af börnum, sem hvorki voru með ADHD né málþroskaröskun. Megin niðurstaða rannsóknarinnar er sú, að eingöngu ADHD börn með sértæka málþroskaröskun eru með skert yrt vinnsluminni, en ADHD börn með eðlilegan málþroska eru með óskert yrt vinnsluminni. Báðir hópar ADHD barna voru með eðlilegt óyrt vinnsluminni.
Ályktað er, að mikilvægt sé að skima fyrir sértækri málþroskaröskun, þegar gerðar eru taugasálfræðilegar athuganir á börnum með ADHD.
Í þriðju rannsókninni er athugað sambandið á milli taugasálfræðilegs mats á stjórnunarfærni (executive function) barna með ADHD og mats foreldra og kennara á einkennum um athyglisbrest með ofvirkni. Helstu taugasálfræðilegar kenningar um orsakir ADHD,
sem uppi eru í dag, snúast um að röskunin stafi af skertri stjórnunarfærni. Megin niðurstöður rannsóknarinnar eru þær, að lítið og ómarktækt samband sé á milli taugasálfræðilegra prófa á stjórnunarfærni og mats foreldra og kennara á einkennum um athyglisbrest og ofvirkni. Hins vegar kom fram marktækt samband á milli mats kennara á einkennum einhverfu og einkennum um þunglyndi og frammistöðu á taugasálfræðilegum prófum, sem meta stjórnunarfærni.
Það próf, sem best spáði fyrir mati kennara á athyglisbresti, var málþroskapróf, en ekki próf á stjórnunarfærni.
Sú ályktun er dregin, að einkenni um athyglisbrest hjá börnum geti í mörgum tilfellum stafað af skertum málskilningi og að mikilvægt sé að skima fyrir málþroskaröskun hjá börnum, sem grunuð eru um að vera með ADHD, til að auka líkur á réttri greiningu og viðeigandi meðferð. Í fjórðu rannsókninni eru athuguð áhrif meðferðar með raförvun gegnum húð (TENS) á vitsmunastarf, hegðun og hreyfivirkni barna með ADHD.
Megin niðurstöður eru þær, að TENS meðferð hafði jákvæð áhrif á vitsmunastarf og hegðun að mati foreldra og kennara.
Einnig dró verulega úr hreyfivirkni barnanna, einkum í svefni, samkvæmt virknimæli (actigraphy).
Það er megin niðurstaða doktorsritgerðarinnar, að það sé grundvallaratriði að gerð sé ítarleg greining á börnum, sem grunuð eru um ADHD, því einkenni um athyglisbrest og ofvirkni geti í sumum tilfellum skýrst af algengum fylgikvillum eins og t.d. málþroskaröskun, svefntruflunum og hegðunarvandamálum, sem þarfnast sértækrar meðferðar.
Þrjár greinar byggðar á doktorsritgerðinni hafa þegar birst í erlendum ritrýndum vísindatímaritum.
Sólveig hefur undanfarin 6 ár, samhliða störfum á Landspítala - háskólasjúkrahúsi (LSH),
stundað doktorsnám undir handleiðslu dr. Erik J.A. Scherder prófessors og dr. Anke Bouma prófessors við Ríkisháskólann í Groningen og dr. Joseph A. Sergeant prófessors við Óháða háskólann (Vrije Universiteit) í Amsterdam.
Hún lauk B.A. prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1975, masters prófi (M.Ed.) í Educational Psychology frá John Carroll University í Ohio fylki í Bandaríkjunum 1982, sérfræðingsprófi (certification) í School Psychology frá John Carroll University 1984 og diplomaprófi í taugasálfræði barna frá The European Graduate School of Child Neuropsychology í Amsterdam 1998.
Sólveig hlaut löggildingu sem skólasálfræðingur í Ohio fylki í Bandaríkjunum 1984 og sem sálfræðingur á Íslandi 1985. Hún hlaut sérfræðingsviðurkenningu í klínískri barnasálfræði árið 2000 og í klínískri taugasálfræði barna árið 2002. Hún hefur síðan 1985 starfað sem sálfræðingur í skólum, hjá Félagsþjónustunni í Reykjavík og síðan 1998 sem klínískur taugasálfræðingur á LSH auk þess að reka eigin stofu. Hún er gift Gesti Þorgeirssyni yfirlækni og eiga þau 4 börn og 4 barnabörn.