Frá prófessoraráðinu á Landspítala - háskólasjúkrahúsi
(september 2006)
„Vegna umræðna um byggingu nýs Landspítala - háskólasjúkrahúss, vill prófessoraráðið, sem er samráðsvettvangur prófessora í læknadeild Háskóla Íslands sem starfa við spítalann, benda á eftirfarandi: Öflug vísinda- og menntastarfsemi á háskólasjúkrahúsi er undirstaða hágæðaþjónustu við alla landsmenn og forsenda þess að íslensk heilbrigðisþjónusta þróist í samhljómi við það sem gerist hjá viðmiðunarþjóðfélögum Íslendinga. Slík stofnun þarf að starfa sameinuð á einum stað í tengslum við Háskóla Íslands og aðrar menntastofnanir. Undirbúningsvinna hefur þegar farið fram og væri óráð að hvika frá þeirri stefnu að byggja upp nýtt háskólasjúkrahús við Hringbraut. Fyrsta skrefið í átt að nýju háskólasjúkrahúsi var sameining sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu. Frá upphafi var ljóst að fullur árangur af sameiningunni næðist ekki meðan starfsemin er dreifð á mörgum stöðum í borginni. Frekari árangur byggist á því að ljúka sameiningarferlinu með fyrirhugaðri nýbyggingu Landspítala - háskólasjúkrahúss og koma þar með allri starfseminni í eitt hús sem svarar kalli tímans varðandi aðstöðu sjúklinga og starfsfólks. Til þess að byggja upp öflugt háskólasjúkrahús þarf sameinaða krafta og víðtækur stuðningur við slíka uppbyggingu er því brýnt hagsmunamál lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna en umfram allt sjúklinga framtíðarinnar. Bygging nýs Landspítala - háskólasjúkrahúss útilokar ekki að heilbrigðisþjónusta sé jafnframt byggð upp með ýmsum öðrum hætti í landinu; hún er þvert á móti forsenda þess að aðrar leiðir séu mögulegar.“
Frá deildarráði læknadeildar Háskóla Íslands vegna umræðna
um sameiningu sjúkrahúsanna og uppbyggingu nýs háskólasjúkrahúss
(september 2006)
"Í samstarfi við heilbrigðisvísindadeildir Háskóla Íslands myndar Landspítali - háskólasjúkrahús stærsta mennta- og rannsóknasetur landsins í heilbrigðisvísindum þar sem um 1000 nemendur fá starfsmenntun árlega.
Starfsmenn sjúkrahússins þurfa því í daglegum störfum sínum að samflétta klíníska þjónustu við sjúklinga, menntun heilbrigðisstétta og rannsóknavinnu sem er undirstaða þróunar heilbrigðisþjónustunnar.
Starfsemi Landspítala - háskólasjúkrahúss er nú margskipt og dreifð víða um borgina og telja má að orsakir margra þeirra vandamála sem við er að etja í dag felist í óhagræði þessarar dreifingar.
Deildarráð læknadeildar telur afar þýðingarmikið fyrir þjóðina að byggt verði nýtt háskólasjúkrahús sem fyrst, svo unnt verði að ljúka sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík og hvetur til samstöðu allra innan sem utan Landspítala - háskólasjúkrahúss um uppbyggingu háskólaskólasjúkrahússins og heilbrigðisvísindadeilda á einum stað.
Deildarráð hvetur jafnframt til þess að sú þekking og aðstaða, sem fyrir hendi er utan Landspítala - háskólasjúkrahúss, verði einnig nýtt við klíníska kennslu, þjálfun og rannsóknir nemenda í heilbrigðisvísindagreinum."