Haldið verður málþing um málefni fólks með heilaskaða og aðstandendur þess
í Hringsal á Landspítala Hringbraut fimmtudaginn 28. september 2006 , kl. 13:00-16:00
Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Aðgangur ókeypis.
Fagráð um heilaskaða boðar til málþings um málefni þeirra sem takast á við afleiðingar áunnins heilaskaða.
Áætlað er að í kringum 500 manns fái heilaskaða á ári hverju og þar af um 50 manns sem þurfa á sérhæfðri endurhæfingu að halda vegna heilaskaðans. Helst er um að ræða ungt fólk og algengustu orsakir eru umferðarslys og af völdum ofbeldisverka.
Tilgangur málþingsins er að auka umræðu og skilning fólks á hlutskipti þeirra einstaklinga sem hér um ræðir, fjölskyldur þeirra og nánasta umhverfi. Þessi hópur hefur til þessa ekki átt sér neinn sameiginlegan vettvang eða málsvara.
Á málþinginu verður leitast við að svara spurningum um hvað tekur þá við og hugmyndir þeirra sem starfa að þessum málum kynntar.
Á málþinginu verður farið inn á hvaða sýn opinberir aðilar hafa varðandi endurhæfingu, endurmenntun og félagslega þjónustu við einstaklinga sem takast á við afleiðingar áunnins heilaáverka.
Jafnframt er markmiðið með málþinginu að leggja hornstein að stofnun félags aðstandenda og fagfólks um málefni fólks með heilaskaða.
Fagráð um heilaskaða er hópur sérfræðinga sem starfa á þjónustustofnunum, sem sinna málefnum einstaklinga sem takast á við afleiðingar heilaskaða.
Hlut eiga að máli Landspítali - háskólasjúkrahús, Reykjalundur endurhæfing, Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis, svæðisskrifstofur um málefni fatlaðra, Hringsjá starfsendurhæfing, Fjölmennt og fleiri stofnanir.
Dagskrá:
13:00 - 13:10 Opnun fundarstjóra, sagan
Guðrún Karlsdóttir endurhæfingarlæknir LSH
13:10 - 13:30 Dæmigerð einkenni, skilgreining og fjöldi
Jónas G. Halldórsson taugasálfræðingur LSH
13:30 - 13:50 Endurhæfingarúrræði
Margrét Sigurðardóttir iðjuþjálfi Reykjalundi
13:50 - 14:10 Samfélag fyrir alla
Olga B. Jónsdóttir félagsráðgjafi Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis
14:10 – 14:30 Kaffihlé
14:30 - 14:50 Reynsla aðstandanda
Kristín B. Michelsen
14:50 - 15:10 Heilaskaðaðir – falinn hópur
Guðrún Sigurjónsdóttir verkefnastjóri Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis
15:10 - 15:30 Framtíð, vonir og væntingar
Ólöf Bjarnadóttir tauga- og endurhæfingarlæknir Reykjalundi
15:30 – 16:00 Pallborðsumræður
Auk ofangreindra fyrirlesara mun Þór G. Þórarinsson skrifstofustjóri Félagsmálaráðuneytisins taka þátt í pallborðsumræðum