Starfsmönnum við spítalann var kynnt fyrir skemmstu að starfshópur hefur verið skipaður til að rýna drög að þarfalýsingu nýs háskólasjúkrahúss.
Jóhannesi M. Gunnarssyni framkvæmdastjóra lækninga hefur verið falið að leiða það starf ásamt hópi starfsmanna. Hér er um viðamikið og mikilvægt starf að ræða sem mun standa fram í nóvember 2006. Því verður gerð tímabundin breyting á störfum Jóhannesar og daglegum verkum hans dreift á fleiri aðila.
Jóhannes mun hér eftir sem hingað til gegna starfi framkvæmdastjóra lækninga en ákveðið er að hann hafi sér til aðstoðar nokkra samstarfsmenn.
Niels Chr. Nielsen mun gegna starfi aðstoðarmanns Jóhannesar eins og hingað til og sinna daglegum verkefnum á skrifstofu framkvæmdastjóra lækninga. Vilhelmína Haraldsdóttir sviðsstjóri lækninga á lyflækningasviði II mun vinna að ýmsum faglegum málefnum sem hafa verið á herðum Jóhannesar svo sem sérgreinaskiptingu sjúkrahússins o.fl. í þá veru. Páll H. Möller yfirlæknir mun sinna tímabundið erindum sjúklinga s.s. kvörtunum og kærum, Runólfur Pálsson yfirlæknir kemur til aðstoðar í faglegum málefnum sem jafnframt tengjast málefnum sjúkrahússins og þróun þeirra og Þórður Harðarson prófessor mun sinna málum sem varða tengsl lækna og háskólans og ýmsu er varðar vísindaverkefni.
Sá hópur sem hér um ræðir starfar í umboði framkvæmdastjóra lækninga eftir því sem Jóhannes ákveður nánar.
(Tilkynning frá skrifstofu forstjóra)