Ályktun
stjórnarnefndar Landspítala - háskólasjúkrahúss
á fundi 14. september 2006
Stjórnarnefnd Landspítala - háskólasjúkrahúss undrast ályktanir Læknafélags Íslands sem samþykktar voru á aðalfundi þess nýlega um starfsemi sjúkrahússins og framtíðaruppbyggingu. Stóryrðum félagsins um stjórnendur LSH er vísað á bug og lýst fullum stuðningi við þá í vandasömum verkefnum. Einnig vekur furðu að Læknafélag Íslands gangi gegn ítrekuðum samþykktum læknaráðs, hjúkrunarráðs og starfsmannaráðs LSH um nauðsyn þess að reisa nýtt háskólasjúkrahús.
Aðalfundur læknaráðs LSH áréttaði í maí síðastliðnum hversu þýðingarmikið það er fyrir þjóðina að byggja nýjan spítala sem fyrst svo unnt verði að ljúka sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík á einum stað, enda leiði það til betri þjónustu og hagræðingar í rekstri. Undir þau sjónarmið tekur stjórnarnefnd heilshugar og hvetur alla starfsmenn og stjórnendur LSH til þess að standa áfram saman um uppbyggingu háskólasjúkrahússins.