Tilraunaverkefni um samnýtingu upplýsinga úr læknisvottorði vegna krabbameinssjúklinga hófst um mánaðamót maí og júní 2006 .
Um er að ræða samvinnuverkefni Tryggingastofnunar ríkisins (TR) og Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH).
Tilgangur verkefnisins er að samnýta læknisfræðilegar upplýsingar í því skyni að einfalda afgreiðsluferlið.
Að sögn Bjarkar Pálsdóttur forstöðumanns hjálpartækjamiðstöðvar TR er gert ráð fyrir að verkefnið verði fyrirmynd um einföldun umsóknarferla í öllum málaflokkum TR. "Stóra breytingin er sú að nú þarf aðeins eitt grunnvottorð læknis vegna umsókna fyrir sama einstakling um ýmsar bætur s.s. lyfjaskírteini, ferðakostnað, endurhæfingarlífeyri, örorkulífeyri, næringarstyrk, hjálpartæki og heimahjúkrun," segir Björk. "Með þessu verður mikil hagræðing fyrir alla sem koma að umræddri vinnu og vonir standa til að þetta flýti einnig fyrir vinnslu mála."
Nýtt eyðublað, Grunnvottorð læknis vegna krabbameins, er komið á heimasíðu TR.
Leiðbeiningum með grunnvottorði hefur verið dreift til lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna LSH og starfsfólks TR.
Tilraunaverkefnið er til eins árs.
(Fréttatilkynning LSH og TR)