8. júní 2006
Magnús Pétursson forstjóri LSH
Ágæta samstarfsfólk!
Bygging nýja háskólasjúkrahússins er að okkar mati mesta framfaramál í íslenskri heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisvísindum á Íslandi um langa hríð. Undirbúningurinn hefur verið eins skipulagður og vandaður og hægt er að hugsa sér og hver áfanginn í því starfi hefur rekið annan síðastliðinn 6 ár. Í því ferli öllu hafa hundruð starfsmanna spítalans leikið stórt hlutverk með þátttöku sinni í notendavinnu og þarfagreiningu.
Stjórnmálamenn, bæði hjá ríki og borg, hafa líka lagt sig fram um að standa sem allra best að málum, þar á meðal varðandi staðsetningu og fjármögnun. Þetta er langt ferli en því hefur miðað áfram með eðlilegum hætti eftir að skriður komst á.
Fyrir rúmum fjórum mánuðum kom þessi hópur saman í Borgarleikhúsinu, það er á þriðja hundrað starfsmenn Landspítala - háskólasjúkrahúss og Háskóla Íslands. Viðfangsefni þeirra var að taka sæti í starfsnefndum til að vinna með ráðgjöfunum sem sigruðu í skipulagssamkeppninni um Hringbrautarlóð. Til þessa verks var kallað fólk sem var treyst til þess að horfa langt fram og leggja gott til. Þetta er búið að vera mikið verkefni en jafnframt afar mikilvægt til þess að móta nýjan spítala þannig að hann verði sem allra best úr garði gerður, bæði hið innra og byggingarnar sjálfar. Hér hefur verið um aukastarf að ræða, drifið áfram af metnaði fyrir hagsmuni LSH og HÍ. Þessum áfanga er lokið og nú eiga arkitektarnir næsta leik, að vinna úr hugmyndum ykkar og raða molunum saman þannig að úr verði skýr heildarmynd. Við höfum lengi vitað að það bráðvanti nýtt háskólasjúkrahús til þess að leysa af hólmi gamlar byggingar og bæta þjónustu við sjúklinga og nemendur og starfsaðstöðu fólks. Skilningur stjórnmálamanna og almennings er einnig til staðar. Nú vitum við öllu betur hvernig við viljum hafa nýja sjúkrahúsið.
Nú verða þáttaskil í ykkar verkefni en við viljum eiga ykkur að. Enn verða uppi stórar spurningar sem þarfnast svara og misstór vandamál sem þarfnast úrlausnar bæði í áframhaldandi undirbúningsvinnu og þegar kemur til framkvæmdanna sjálfra. Ykkar framlag verður mikilvægt þá eins og það er núna.
Nýtt háskólasjúkrahús verður byggt við Hringbraut, það liggur fyrir – um það efast ég ekki. Þjóðin vill það og hún þarf á því að halda. Við getum heldur ekki lengi tafið við málið því við glímum nú þegar við mörg vandamál sem má rekja til húsnæðisaðstæðna. Þau leysast með nýja spítalanum. Þetta þekkja starfsmenn spítalans mæta vel. Við vitum líka að þótt rekstur spítalans sé kominn í jafnvægi þá má enn auka hagkvæmnina en það ekki gert frekar, sem nenu nemur, við núverandi aðstæður meðan starfsemin er svona dreifð.
Ég tel það samfélaginu hagstætt að reisa þennan spítala. Því er hins vegar ekki að leyna að efasemdaraddir heyrast og kannski ekki við öðru að búast þegar um svona stórt verkefni er að ræða. Menn velta vöngum yfir staðsetningunni og hvort rétt sé að byggja í þenslutíð. Það heyrist líka að frekar ætti að huga að vanda aldraðra en byggja nýjan spítala.
Við öllum svona spurningum eigum við einföld og skýr svör. Fátt kemur öldruðum betur en að hér rísi nýtt sjúkrahús af bestu gerð, staðsetningin var ákveðin eftir vandaðan undirbúning þar sem lögðu saman starfsmenn spítalans, ríki, borg og ýmsir sérfræðingar, bæði innlendir og erlendir. Og þar að auki spilar þetta ekkert inn í þensluna hér á landi núna því framkvæmdir hefjast ekki fyrr en í fyrsta lagi eftir 2 ár.
Við þekkjum þessi rök, og fjöldamörg önnur fyrir nýjum spítala og nauðsyn þess að haldið verði áfram þeirri vinnu sem hér er verið að skila samkvæmt þeim áætlunum sem unnið er eftir. Þessi hópur kann rökin öðrum betur og má gjarnan halda þeim á lofti í samfélaginu og fyrir samfélagið.
Kærar þakkir fyrir starfið.