Lionsklúbburinn Fjörgyn hefur fært Barnaspítala Hringsins að gjöf speglunartæki til skoðunar á nefi, nefholi, barka og raddböndum barna.
Tækið er hið fullkomnasta, af tegundinni Olympus ENF P4 og valið í samráði við háls-, nef- og eyrnalækna á LSH. Verðmæti gjafarinnar er tæp ein milljón króna.
Fjörgynjarfélagar hafa undanfarinn áratug stutt Barnaspítala Hringsins af miklum metnaði og m.a. gefið honum fullkominn heilasírita, öndunarvél fyrir fyrirbura ásamt hitakassa, í samvinnu við Bónus, magaspeglunartæki fyrir börn, ristilspeglunartæki, fullkominn hjartsláttarvaka með öndunarvaka, súrefnismettunarmæli og blóðþrýstingsmæli, brunabað með viðeigandi aðstöðu, stafræna myndavél og nákvæma blóðþrýstingsmæla með súrefnisþéttnimælum.
Þá hafa Fjögynjarmenn gefið Barnaspítala Hringsins endurlífgunardúkku til æfinga og þjálfunar fyrir starfsfólk og til kennslu.
Myndir:
- Hannes Petersen yfirlæknir háls-, nef og eyrnalækninga á LSH
sýndi hvernig nýja speglunartækið er notað og leit til þess
aðeins inn í nefið á Guðmundi Helga Gunnarssyni formanni Fjörgynjar. Þar reyndist allt í stakasta lagi. - Starfsfólk og gefendur á skoðunarstofu á Barnaspítala Hringsins. Það er óhætt að segja að þeir félagarnir í Fjörgyn hafi verið starfseminni þar og víðar á LSH velviljaðir undanfarin ár.