Heilbrigðisstefna og sameining sjúkrahúsa er yfirskrift opins hádegisfyrirlesturs í Öskju föstudaginn 10. febrúar 2006, kl. 12:15.
Fyrirlesari: Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur.
Nánar:
Hvernig móta ríkisstjórnir heilbrigðiskerfið? Hvers vegna tókst sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík árið 2000, þrátt fyrir áralanga andstöðu m.a. lækna við þau áform? Hvernig var sú ákvörðun tekin? Hvert var hið sérstaka stjórnmálalega og stjórnsýslulega samhengi? Þetta er meðal fjölmargra spurninga sem fjallað er um í doktorsritgerð dr. Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur, stjórnsýslufræðings, sem nú er komin út hjá Háskólaútgáfunni.
Sigurbjörg mun í opnum fyrirlestri, á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, kl. 12:15 þann 10. febrúar 2006 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ. greina frá helstu niðurstöðum doktorsrannsóknar sinnar , sem fjallar um aðdraganda að ákvörðun um sameiningu sjúkrahúsa í Reykjavík (Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítala árið 2000) og Lundúnum (St. Thomas´s and Guy´s hospitals árið 1995). Doktorsritgerðin, sem er á ensku, ber yfirskriftina "Health Policy and Hospital Mergers: How the impossible became possible" og fjallar um pólitík heilbrigðis- og spítalamála í Reykjavík og Lundúnum. Fundarstjóri verður Helga Jónsdóttir lögfræðingur og sviðsstjóri stjórnsýslu- og starfsmannasviðs Reykjavíkurborgar.
Umræða um heilbrigðismál á Íslandi hefur einkennst mjög af læknisfræðilegri orðræðu. Þetta er hins vegar fyrsta rannsóknin á Íslandi þar sem athyglinni er sérstaklega beint að stjórnsýslu heilbrigðismála. Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á það hvernig ríkisstjórnir móta heilbrigðiskerfið með ákvörðunum sínum og hvernig þessar ákvarðanir eru teknar. Rannsóknin gefur stjórnmálamönnum og embættismönnum tæki í hendur til þess að ræða heilbrigðismál frá sjónarhóli stjórnsýslunnar og þar með sérstaka nálgun til þess að skoða heildarmyndina við mótun og framkvæmd heilbrigðisstefnu.
Rannsóknin gefur sögulega og pólitíska innsýn í þróun sjúkrahúsþjónustunnar í Reykjavík og nýtist sem slík í umræðunni um stefnu, leiðir og aðgerðir í heilbrigðismálum á höfuðborgarsvæðinu. Auk þessa hefur ritgerðin að geyma fræðilega þekkingu á stefnumótun heilbrigðismála, gagnrýna umfjöllun um þekkt stjórnmálafræðileg skýringalíkön frá Bandaríkjunum og Kanada, og sýnir hvernig þessum líkönum er beitt í rannsóknum við breskar og íslenskar aðstæður. Þannig er rannsókn Sigurbjargar gagnleg fyrir fræðimenn, kennara og nemendur í félagsvísindum við kennslu og frekari rannsóknir á sviði stjórnmála- og stjórnsýslufræða.
(Fréttatilkynning)