Magnús Karl Magnússon sérfræðingur í blóðmeinafræði á blóðmeinafræðideild og erfða- og sameindalæknisfræðideild við Landspítala - háskólasjúkrahús (LSH) fékk vísindaverðlaun 2005. Verðlaunin nema tveimur og hálfri milljón króna og voru afhent á ársfundi LSH í Salnum í Kópavogi 29. apríl 2005.
Verðlaunin veitir verðlaunasjóður í læknisfræði sem læknarnir Árni Kristinsson og Þórður Harðarson stofnuðu. Þetta er í annað skipti sem þessi verðlaun eru veitt.
Nám og störf
Magnús Karl Magnússon útskrifaðist úr læknadeild Háskóla Íslands 1991. Tók árs leyfi frá hefðbundnu læknanámi til vísindavinnu undir umsjón Guðmundar Þorgeirssonar og Haraldar Halldórssonar og fékkst við rannsókn á boðferlum í æðaþelsfrumum.
Lauk sérnámi í almennum lyflækningum frá University of Wisconsin – Medical School – Clinical Investigator Pathway. Lauk sérnámi í blóðmeinafræði frá National Institutes of Health (NIH) í Maryland, Bandaríkjunum, 2000. Sérfræðingur í blóðmeinafræði og vísindastörf við blóðmeinafræðideild NIH 2000 - 2002. Sérfræðingur í blóðmeinafræði á blóðmeinafræðideild og erfða- og sameindalæknisfræðideild við Landspítala - háskólasjúkrahús (LSH) frá 2002.
Vísindaferill
Magnús hefur lagt stund á grunnrannsóknir þar sem áherslan er á grundvallarskilning sjúkdómsferla. Rannsóknir við blóðmeinafræðideild NIH í Bandaríkjunum voru einstaklega vel heppnaðar.
-Hann einangraði sjúkdómsgen í hvítblæði af flokki svokallaðra týrósín kínasa
-Sýndi fram á lykilhlutverk þessa gens með því að flytja það inn í músamódel og framkalla þannig sjúkdóminn
-Sýndi fram á notkunarmöguleika sérhæfðs lyfs gegn þessu sjúkdómsgeni og notaði það síðan í meðferð í sjúklingi með góðum árangri
Það eru aðeins þrjú ár síðan Magnús lauk sérnámi. Samt hefur mikið verið vitnað í rannsóknir hans, um 400 tilvitnanir erlendra tímarita eru skráðar hjá Institute of Scientific Information (ISI). Hann hefur verið mjög virkur í að afla styrkja og stofna tengslanet vísindamanna. Hann stýrir nú stórri rannsókn sem snýr að þróun á svokölluðum genaörflögum til sjúkdómsgreininga. Rannsóknin er unnin í samvinnu við líftæknifyrirtæki og amerískan háskóla með þriggja ára styrk frá tækniþróunarsjóði sem nemur 30 milljónum króna. Hann er þátttakandi í samevrópskum hópi sem vinnur að þróun á genaörflögutækni til sjúkdómsgreiningar. Einnig er hann þátttakandi í samnorrænum ráðgjafarhópi vísindamanna á sviði rannsókna á krabbameinsgenum af flokki týrósín kínasa. Magnús hefur haft veruleg áhrif á vísindastefnu á landsvísu. Hann stýrði vinnuhópi er vann að tillögusmíð um nýja markáætlun vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2005 - 2009. "Hagnýting erfðafræðiþekkingar í þágu heilbrigðis" var valin önnur tveggja tillagna sem eiga að mynda grunn að nýrri markáætlun ráðsins fyrir næstu fimm árin og fá 500 milljónir króna til úthlutunar. Hann situr í fagráði Rannís í heilbrigðis- og lífvísindum og í vísindaráði LSH.