Kynning á ársreikningi LSH 2004
Anna Lilja Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri fjárreiðna og upplýsinga
29. apríl 2005
Heilbrigðisráðherra, stjórnarnefnd og aðrir fundarmenn! Ég mun gera grein fyrir helstu niðurstöðum í starfsemi og rekstri Landspítala - háskólasjúkrahúss fyrir árið 2004 en jafnframt horfa til síðustu fimm ára í rekstri spítalans, eða frá sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík. |
|
Fjárheimildir og sértekjur ársins námu um 27,6 milljörðum og höfðu lækkað um 0,3% á milli ára. Heildargjöld spítalans námu um 27,9 milljónum og höfðu hækkað um 1,0%. Þar af eru launagjöld stærsti kostnaðarliðurinn, eða 66,5%. Rekstrargjöld, að meðtöldum S-merktum lyfjum, voru 30,5% af heildargjöldum og eignakaup, viðhald og stofnkostnaður 3%. Fjármagnsgjöld námu 108 m.kr. Skv. ársreikningi voru gjöld 289 milljónum umfram tekjur. | |
Til að mæta sparnaðarkröfu í fjárlögum ársins var dregið úr launakostnaði með því að segja upp fólki, leggja af vaktir, draga úr yfirvinnu og fleiru sem tók til 500 - 600 starfsmanna. Launagjöld hækkuðu um 2,5% á milli ára sem er talsvert lægra en hækkun launavísitalna. Dagvinnulaun hækka um 3,9% en önnur laun lækka um 0,8%. Áfram hækka launatengd gjöld, aðallega vegna lögbundinnar hækkunar framlaga í séreignasjóði starfsmanna spítalans. Lyfjakostnaður var stærsti rekstrarkostnaðarliðurinn eða 2,8 milljarðar og jókst hann um tæp 7%. Þar vegur þyngst 12,6% hækkun á kostnaði S-merktra lyfja en það eru lyf sem eingöngu eru gefin á sjúkrahúsum eða í tengslum við sjúkrahús. Önnur lyf lækkuðu um 1,4%. Kostnaður vegna lækninga- og hjúkrunarvara var 1,5 milljarður og hafði sá kostnaðarliður lækkað um rúmt 1%. Í þessum tölum kemur greinilega fram sú áhersla sem hefur verið á eflingu innkaupaþáttar spítalans og endurskoðun verkferla, m.a. með setningu innkaupareglna og fjölgunar útboða. Aðkeypt þjónusta lækkaði um 5,6%. Þar vegur þyngst lækkun á aðkeyptri sérfræðiþjónustu. |
|
Dagvinnustöðugildum á spítalanum hefur markvisst verið fækkað frá sameiningu. Samtals hefur þeim verið fækkað um rúm 300 á fimm árum. Starfsmenn eru um 4.700 í um 3.800 stöðugildum. | |
653 m.kr. var varið í stofnkostnað og viðhald á árinu sem er lækkun um rúm 24% frá árinu á undan. Þar munar mestu um lok byggingar nýs barnaspítala. 267 milljónum var varið til meiriháttar tækjakaupa og 171 milljón til minniháttar eignakaupa. 100 milljónir fóru til endurnýjunar á legudeildum spítalans og 91 til endurnýjunar á slysa- og bráðadeild í Fossvogi. | |
Athyglisvert er að skoða rekstur síðustu fimm ára á föstu verðlagi. Greiðsla fyrir S-merkt lyf var færð frá Tryggingastofnun ríkisins til spítalans á árinu 2001. Vegna hins mikla kostnaðar við S-merkt lyf og samanburðarins á milli áranna 2000 til 2004 þá hef ég tekið þann kostnað ásamt stofnkostnaði við nýjan barnaspítala út úr samanburðinum. Eins og fram kemur í tölunum sést að kostnaður við rekstur Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur nánast staðið í stað frá sameiningu, eða í fimm ár. Á sama tíma fjölgaði íbúum landsins um rúmlega 10.000 eða um 3,6% og öldruðum yfir 67 ára fjölgaði á sama tíma um 6,5%. Að auki gera tækniframfarir mögulegt að veita sífellt meiri þjónustu sem skilar sér m.a. í hækkandi meðalaldri þjóðarinnar. |
|
Uppsafnaður rekstrarhalli skv. efnahagsreikningi var 1.032 m.kr. um áramótin. Skammtímakröfur voru 644 milljónir og skammtímaskuldir rúmir 2 milljarðar. Greiðslustaða spítalans er því afar erfið sem gerir það að verkum að spítalinn þarf að greiða umtalsverða fjármuni í dráttavexti vegna vanskila við birgja. | |
Starfsemi Landspítala - háskólasjúkrahúss er mjög umfangsmikil og tel ég gagnlegt að víkja að nokkrum lykiltölum í starfsemi spítalans síðustu fimm árin og þróun í rekstri hans. Ég vil benda á nýútkomna ársskýrslu spítalans og Stjórnunarupplýsingar sem auk prentaðrar útgáfu eru settar mánaðarlega á upplýsingaveitu sjúkrahússins og eru þar almenningi aðgengilegar. Fyrst vil ég vekja athygli á hlutfalli heildarútgjalda ríkisins sem spítalanum eru ætluð á hverju ári. Ætla mætti þegar horft er til fjölgunar þjóðarinnar, fjölgunar aldraðra og tækniframfara og það að Landspítali - háskólasjúkrahús er eina sjúkrahús sinnar tegundar á landinu að hlutfallslega séu sífellt meiri fjármunir að fara frá ríkinu til reksturs spítalans. En það er öðru nær, hlutfallið hefur lækkað síðustu fimm árin og mun enn lækka á þessu ári skv. rekstraráætlun spítalans og fjárlögum ársins. Árið 2004 var 9,06% af heildarfjárlögum ríkisins varið til reksturs spítalans en 9,32% á árinu 2000. Ég vil í þessu sambandi vara við að ganga svo nærri spítalanum að hann eigi erfitt með að sinna hlutverki sínu sem þekkingar- og þjónustustofnunar í þágu almennings. Legurúmum á sólarhringsdeildum spítalans hefur verið fækkað markvisst síðustu árin. Legurúmin voru 1.260 á fyrsta árinu eftir sameiningu en voru skráð 862 á síðasta ári. Sama má segja um fjölda sjúklinga sem innritast á legudeildir spítalans og fjölda daga sem hver sjúklingur er inniliggjandi. Stytting meðallegutíma gerir það að verkum að hver sjúklingur liggur aðeins inni á spítalanum á meðan hann er hvað veikastur sem veldur því að bráðleiki, sem mælir umönnunarþyngd sjúklinga að meðaltali, er sífellt að aukast. Þessi þróun er einnig í nágrannalöndum okkar. |
|
Hins vegar hefur stefnan hér á landi, eins og í nágrannalöndum okkar, verið sú að auka dag- og göngudeildarþjónustu til mótvægis minnkunar í sólarhringsþjónustu og styttingu meðallegutíma. Dagdeildarkomur voru tæplega 102.000 á síðasta ári og höfðu þá aukist um nær 15% á fimm árum og komur á göngudeildir spítalans hafa aukist um nálægt 23%. Þess ber þó að geta að skráning á göngudeildum hefur tekið breytingum á þessum árum. Þá hefur komum á slysa- og bráðadeildir fjölgað jafnt og þétt á síðustu árum og voru rúm 73.000 á síðasta ári. Tæplega 14.700 aðgerðir voru framkvæmdar á skurðstofum spítalans á árinu, hjartaþræðingar voru um 930 og kransæðavíkkanir rúmlega 550. Fæðingar voru tæplega 3.000. Skurðgerðum hefur fjölgað um 2,6% frá árinu 2000 og tæp 13% frá árinu 2001, sem skilar sér í styttingu nánast allra biðlista eftir þjónustu spítalans. Í mörgum sérgreinum er alls engin bið, í öðrum er bið sem talin er eðlileg eða viðunandi og í örfáum sérgreinum er bið of löng þú hún hafi styst umtalsvert. Hjartaþræðingum hefur fjölgað um 33% og kransæðavíkkunum um tæp 23% á sama tíma. Bið eftir hjartaþræðingu hefur aukist á síðustu mánuðum en unnið er að styttingu biðlista eftir hjartaþræðingu. |
|
Hérna sést myndrænthvernig áherslan í starfseminni hefur verið að breytast, sólarhringsinnlagnir dragast saman en dag- og göngudeildarþjónusta eflist að sama skapi. | |
Hér sést myndrænt hvernig meðalbið í mánuðum eftir helstu aðgerðum hefur styst á þremur árum. Gulu súlurnar eru 2003 tölur, rauðu eru 2004 og bláu súlurnar eru 2005. |
|
Að lokum langar mig til að vekja athygli á þeim fjölmörgu þáttum sem hafa áunnist á síðustu fimm árum í rekstri spítalans. Sameining sérgreina hefur verið umfangsmikið verkefni og má segja að því sé í meginatriðum lokið. Í kjölfarið hefur náðst umtalsverð framleiðniaukning, þ.e. starfsemi hefur aukist án þess að samsvarandi hækkun hafi orðið í rekstrarkostnaði. Með sameiningunni hafa sérgreinar stækkað sem gefur færi á meiri sérhæfingu innan hverrar sérgreinar með bættri þjónustu við sjúklinga. Þá hefur mikil vinna verið lögð í endurskoðun verkferla á spítalanum. Stefna hefur verið sett í öllum helstu málaflokkum, s.s. innkaupastefna, vísindastefna og stefna í upplýsingatækni svo eitthvað sé nefnt. Ný upplýsingakerfi, bæði fjárhags- og mannauðskerfi og klínísk kerfi hafa verið tekin í notkun sem bæta upplýsingagjöf og gera þjónustu við sjúklinga markvissari ásamt því að skila okkur áleiðis að því markmiði að sjúkraskrá verði að fullu rafræn. Mikil áhersla hefur verið á kostnaðargreiningu á þjónustu spítalans ásamt því að innleiða framleiðslumælingarkerfi á alla starfsemi hans. Unnið er með öðrum Norðurlandaþjóðum að innleiðingu á alþjóðlegu kerfi sem byggir á DRG en DRG kerfið var þróað í Bandaríkjunum á áttunda áratugnum. Kerfið hefur verið aðlagað að norrænum aðstæðum og er spítalinn í samstarfi við aðrar Norðurlandaþjóðir um þróun NordDRG kerfisins. Kerfið þjónar einnig utanspítalasjúklingum og í gangi er þróun á kerfinu fyrir endurhæfingardeildir og geðdeildir og áætlað er að aðlaga kerfið einnig að öldrunardeildum. Byrjað var að innleiða kerfið á árinu 2001 og á síðasta ári var öll starfsemi spítalans flokkuð skv. DRG. Kostnaðargreining á starfsemi spítalans hefur verið unnin samhliða. Eins og ég hef rökstutt hér að framan þá sést ljóslega að góður árangur hefur náðst á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Kostnaður við rekstur spítalans, á föstu verðlagi, hefur nánast staðið í stað í fimm ár, hlutfall framlaga til spítalans af heildarútgjöldum ríkisins hefur lækkað og framleiðsla hefur aukist jafnt og þétt sem skilar sér í fækkun á biðlistum. Stjórnendum og starfsmönnum Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur því tekist að ná árangri í að auka framleiðslu spítalans á mjög hagkvæman hátt. Rekstur spítalans er og þarf að vera í sífelldri endurskoðun og leita þarf stöðugt leiða til hagkvæmari reksturs. Hins vegar þarf að varast að ganga ekki of nærri starfseminni. Taka þarf fjölgun þjóðarinnar, sérstaklega fjölgun í röðum aldraðra, með í reikninginn þegar fjárveitingar til reksturs Landspítala - háskólasjúkrahúss eru ákveðnar. Um er að ræða háskólaspítala allra landsmanna sem hefur víðtækt hlutverk í þjónustu við sjúklinga, kennslu heilbrigðisstétta og ástundun vísindarannsókna. Í staðinn fyrir föst fjárlög og einhver X% lækkun eða hækkun fjárframlaga án tengingar við umfang á spítalanum ættu stjórnvöld og spítalinn að taka höndum saman og breyta fjármögnunarkerfinu í næstu fjárlögum á þann veg að hluti fjármögnunar verði fastur og hluti breytilegur sem byggðist á umfangi verkefna spítalans. Með því móti hefðu stjórnvöld möguleika á að verða upplýstir kaupendur að þjónustu spítalans. Eftir fimm ára undirbúningsvinnu er Landspítali - háskólasjúkrahús tilbúinn fyrir breytta fjármögnun. |
|