Reykjavík 30.03.05
Stjórnarnefnd Landspítala - háskólasjúkrahúss fagnar því að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hafi tekið af öll tvímæli um lögmæti stjórnskipulags spítalans. Telur ráðuneytið að skipurit LSH sé í fullu samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu.
Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík, og þar með óhjákvæmileg endurskoðun á skipulagi og starfsemi hans, hefur orsakað mikið álag á starfsmenn spítalans. Þrátt fyrir það hefur spítalinn sýnt fram á mjög góðan árangur í rekstri og má benda á aukin afköst í starfsemi hans á síðasta ári samhliða sparnaði í rekstri sem skilar sér beint í fækkun á biðlistum eftir þjónustu hans. Stjórnskipulag spítalans hefur stutt vel við þessar breytingar og hinn góða árangur í rekstri.
Forstjóri og framkvæmdarstjórn munu á næstunni boða til fundar með fulltrúum yfirlækna, sviðsstjóra og læknaráðs og hjúkrunarráðs LSH með það að leiðarljósi að efla enn frekar samskipti og auka samráð þessara aðila og yfirstjórnar LSH.