Gert er ráð fyrir þremur áföngum í fyrirhugaðri stækkun smella hér
Þjóðarátak stendur yfir um stækkun barna- og unglingageðdeildar og hefur talsvert fé safnast í sjóð með því að margir hafa lagt sitt af mörkum að undanförnu. Kvenfélagið Hringurinn gaf til dæmis í fyrra 50 milljónir króna en auk þess hafa mörg önnur félagasamtök og einstaklingar lagt verkefninu lið með drjúgu framlagi, Thorvaldsenskonur, Kiwanismenn, Lionsmenn, kvenfélagasamtök og margir fleiri. Þannig hafa verið tryggðar um 190 milljónir króna til byggingarinnar.
Heildarkostnaður er áætlaður röskur hálfur milljarður króna með bílastæðum. Það vantar því enn mikið til þess að tryggja fjármögnun og verðugt verkefni fólks að hjálpa til við það.
Unglingar í Samfés, samtökum félagsmiðstöðva á Íslandi, lögðu sín lóð á vogarskálar og söfnuðu fé í byggingarsjóð BUGL helgina 18. til 20 febrúar með því að selja armbönd með áletruninni "Geðveikt".