Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur birtir í dagblöðum í dag, föstudaginn 11. febrúar 2005, auglýsingu um breytingu á deiliskipulagi reits 1.344/8, vegna lóðarinnar Dalbraut 12. Þessi breyting á skipulagi tengist fyrirhugaðri stækkun BUGL, barna- og unglingageðdeildar LSH. Unnið hefur verið markvisst að undirbúningi þess að stækka BUGL og er gert ráð fyrir þremur byggingaráföngum. Þess er vænst að hægt verði að bjóða út fyrsta áfangann, göngudeildarhúsnæðið, seint á þessu ári og að hinir fylgi strax í kjölfarið.
Þjóðarátak stendur yfir um stækkun barna- og unglingageðdeildar og hefur talsvert fé safnast í sjóð, nefna má til dæmis stórgjöf Hringsins, söfnun Kiwanismanna og fé sem Lionsklúbburinn Fjörgyn safnaði með tvennum styrktartónleikum. Margir fleiri hafa lagt fram stórt og smátt til BUGL að undanförnu. Tryggðar hafa verið um 190 milljónir króna til byggingarinnar. Enn vantar samt mikið fé til þess að ljúka verkinu öllu sem áætlað er að kosti röskan hálfan milljarð króna með bílastæðum.
Auglýsing um breytingu á deiliskipulagsáætlunum í Reykjavík Í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, með síðari breytingum, eru hér með auglýstar til kynningar tillögur að breytingum á deiliskipulagi í Reykjavík. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi reits 1.344/8, vegna lóðarinnar Dalbraut 12. Tillagan gerir m.a. ráð fyrir að byggja megi tveggja hæða byggingar á norðvestur og suðaustur hluta byggingarreitsins og að nýtingarhlutfall verði hækkað í 0,4, byggingarreitur er stækkaður óverulega þar sem tengibyggingar tengjast núverandi byggingu og lóð stækkuð um 1078 m2 í átt að Dalbraut fyrir bílastæði og aðkomu. Gert er ráð fyrir nýrri aðkomu að lóðinni frá Dalbraut auk 36 nýrra bílastæða sem staðsett verða á sunnanverðu útivistarsvæði og einnig er gert ráð fyrir körfuboltavelli á suðvestanverðri lóð og að klifurveggur verði byggður upp við húsgafl. Nánar um tillöguna vísast til kynningargagna. Tillögurnar liggja frammi í upplýsingaskála skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar í Borgartúni 3, 1. hæð, virka daga kl. 8:20 – 16:15, frá 11. febrúar til og með 29. mars 2005. Einnig má sjá tillögurnar á heimasíðu sviðsins, skipbygg.is. Eru þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér tillögurnar. Ábendingum og athugasemdum við þær skal skila skriflega eða á netfangi skipulag@rvk.is, til skipulags- og byggingarsviðs (merkt skipulagsfulltrúa) eigi síðar en 29. mars 2005. Þeir sem eigi gera athugasemdir innan tilskilins frests, teljast samþykkja tillögurnar. Reykjavík, 11. febrúar 2005
Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur |