Starfsemi fluttist úr Arnarholti nú um mánaðamótin og sameinaðist öðrum einingum geðsviðs. Er það í samræmi við stefnu framkvæmdastjórnar LSH um að fækka útstöðvum spítalans. Síðustu vistmenn fóru í fylgd starfsmanna úr Arnarholti að kvöldi 31. janúar í sambýli að Flókagötu 31. Öllu starfsfólki í Arnarholti hefur verið boðin vinna á öðrum deildum geðsviðs og meirihlutinn þegið það.
Vistheimilið Arnarholt tók til starfa árið 1945 og þar hefur fjöldi fólks unnið mikilsverð störf í þágu geðsjúkra. Árið 1971 var Arnarholt sameinað geðdeild Borgarspítalans. Byggingin sem hýsti starfsemi deildar 34 var tekin í notkun árið 1977. Í upphafi þess árs voru 60 rúm í Arnarholti. Vistmenn sem dvöldu þar voru ýmist geðfatlaðir, þroskaheftir eða fatlaðir eftir vefræna sjúkdóma. Við sameiningu Landspítalans og Sjúkrahúss Reykjavíkur árið 2000 dvöldu rúmlega 50 sjúklingar á deild 34 í Arnarholti. Í upphafi árs 2004 hafði þeim fækkað í rúmlega 30 og í desember það ár í 20. Sjúklingar hafa útskrifast á hjúkrunarheimili, á aðrar deildir spítalans á öldrunarsviði, geðsviði og í Kópavogi en einnig á sambýli á vegum geðsviðs LSH.
Í samræmi við lög um málefni fatlaðra frá árinu 1992 og stefnumótun á geðsviði LSH er, í samráði við framkvæmdastjórn spítalans, unnið að því að útskrifa einstaklinga sem lokið hafa meðferð á spítalanum í önnur búsetuúrræði. Það er réttur geðfatlaðra að eignast eigið heimili og hljóta ekki þau örlög að vistast á geðdeildum til langframa eins og oft hefur verið bent á undanfarin ár. Ein af stærstu samfélagsbreytingum sem framundan er á Íslandi er að bæta búsetuúrræði geðfatlaðra einstaklinga til að auka lífsgæði þeirra.
Mynd: Starfsemi geðsviðs í Arnarholti lauk 31. janúar 2005 og lögð var rík áhersla á að finna skjólstæðingum sem þar dvöldu góðan samastað. Eydís K. Sveinbjarnardóttir sviðsstjóri hjúkrunar á geðsviði er hér milli tveggja starfsmanna geðsviðs sem unnu með mörgum fleirum farsællega það vandasama og flókna verk að ljúka starfsemi í Arnarholti, þeirra Guðríðar Þorleifsdóttur geðhjúkrunarfræðings og Erlu Bjarkar Sverrisdóttur deildarstjóra í Arnarholti.
Lítum svo til gamans á nokkrar ljósmyndir sem
Vigfús Birgisson ljósmyndari tók í Arnarholti árið 2002.
Smellið hér.
Til að skoða myndirnar þarf forritið Flashplayer.