Stjórnarnefnd Landspítala - háskólasjúkrahúss samþykkti eftirfarandi einróma á fundi sínum í dag, fimmtudaginn 13. janúar 2005:
Stjórnarnefnd Landspítala - háskólasjúkrahúss fagnar mjög þeim stórhug sem fram kemur í hugmyndum ráðherra og þingmanna um fjármögnun byggingar nýs hátæknisjúkrahúss á lóð Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH) við Hringbraut. Um er að ræða eitt stærsta verkefni sem opinberir aðilar munu ráðast í á komandi árum. Tækifæri og svigrúm, eins og það sem skapast við sölu Símans, kemur ekki aftur og því mikilvægt að nota það í verkefni sem þetta, öllum landsmönnum til heilla. Stjórnarnefnd leyfir sér í þessu tilliti að benda á að mikið undirbúningsstarf fyrir slíka framkvæmd hefur á undanförnum árum verið unnið á vegum stofnunarinnar. Spítalinn er því mjög vel fær um að annast frekari undirbúning og byggingu hátæknisjúkrahúss.