Hjúkrunarfræðingarnir og læknarnir á Landspítala - háskólasjúkrahúsi sem fluttu slasaða Svía af náttúruhamfarasvæðinu í Taílandi til Svíþjóðar, með flugvél Loftleiða, eru komnir heim. Þeir komu með Loftleiðaflugvélinni til Keflavíkur skömmu fyrir kl. 18:00 í kvöld frá Stokkhólmi. Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra var mættur til Keflavíkur, ásamt Jóhannesi M. Gunnarssyni forstjóra LSH, Önnu Stefánsdóttur hjúkrunarforstjóra og Vilhelmínu Haraldsdóttur lækningaforstjóra, til að fagna heimkomunni og færa hópnum þakkir spítalans og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins fyrir vel unnin störf. Í honum voru 6 læknar og 12 hjúkrunarfræðingar en að undirbúningi og skipulagi ferðarinnar komu einnig margir aðrir starfsmenn Landspítala - háskólasjúkrahúss, auk fólks sem gekk í störf þeirra sem voru í sjúkrafluginu. Starfsmenn LSH þóttu sýna framúrskarandi fagmennsku og fórnfýsi í verkum sínum og Svíar hafa borið lof á allt skipulag og vinnu Íslendinga í sjúkrafluginu.
Íslenski hópurinn kominn heim
Hópur starfsmanna Landspítala - háskólasjúkrahúss sem sótti slasaða Svía til Taílands er kominn heim eftir vel heppnaða ferð.