Starfshópur sem forstjóri LSH skipaði 15. september 2004 til þess að vinna að útfærslu á tillögum um sameiningu Rannsóknarstofnunar LSH (RLSH), Blóðbankans og Rannsóknarstofu í meinafræði (RÍM) í eitt rannsóknarsvið hefur hefur skilað skýrslu.
Í starfshópnum voru Jónas Magnússon sviðsstjóri, Oddur Fjalldal sviðsstjóri og Guðbjartur E. Jónsson verkefnastjóri. Hópurinn starfaði samkvæmt erindisbréfi.
Í skýrslunni segir meðal annars: "Sameining RLSH, Blóðbankans og RÍM í eitt lífvísindasvið (eins og starfshópurinn kýs að nefna hið nýja svið) er grunnur að frekari framförum í faglegu starfi, hagræðingu og bættri þjónustu. Einungis verður þó hægt að ná áþreifanlegum árangri með verulegum umbótum í húsnæðismálum rannsóknarsérgreina en nauðsynlegt er að þær fái eitt sameiginlegt eða samtengt húsnæði með bættri aðstöðu. Með því móti fengist mikill faglegur og rekstrarlegur ávinningur, bætt þjónusta og verulega auknir samvinnumöguleikar á sviði kennslu og rannsókna. Starfshópurinn telur raunhæft að gjörbreyta húsnæðisaðstöðu rannsóknargreina á 3-4 árum og að á þeim forsendum sé ávinningur af fyrirhugaðri sameiningu."
Skýrsla um útfærslu á tillögum um sameiningu rannsóknarstofnana á LSH