Tveir vaskir menn hyggjast fara yfir Hellisheiði 17. júlí 2004 á hjólastólum og safna í tengslum við ferðina áheitum til styrktar Barnaspítala Hringsins. Arnar Klemensson er 34 ára og Alexander Harðarson 18 ára, báðir lamaðir frá fæðingu. Þeir leggja upp frá frá Hveragerði og ljúka ferðalaginu hjá Barnaspítala Hringsins við Hringbraut.
Tildrög þessa eru þau að Arnar fór yfir Fjarðarheiði fyrir um það bil 13 árum og aftur árið 2001 þegar Landsmót UMFÍ var haldið á Egilsstöðum. Í bæði skiptin safnaði hann með ferðunum drjúgu fé til styrktar íþróttafélagi fatlaðra á Seyðisfirði sem heitir Viljinn. Það hefur síðan blundað í Arnari að halda áfram að fara svona styrktarferðir og nú á að láta verða af því og leggja Hellisheiðina að velli við annan mann. Sniglarnir verða hjólastólaköppunum til aðstoðar varðandi umferðina og einnig hefur verið leitað til lögreglunnar með að hjólastólarnir fái nægt rými til ferðalagsins.
Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta lagt inn á reikning 517-14-100033, kt. 590793-2059.