Nefnd forstjóra Landspítala - háskólasjúkrahúss telur nauðsynlegt að efla ferliverkastarfsemi á spítalanum og setur fram fjölmargar tillögur þess efnis í nýrri skýrslu (pdf). Stjórnarnefnd fjallaði um skýrsluna á fundi sínum 23. júní og tók undir efni hennar.
Í árslok 2001 skilaði nefnd forstjóra skýrslu um ferliverk í starfsemi sjúkrahússins. Til að fjalla áfram um ferliverkin og færa mál á framkvæmdastig skipaði forstjóri nýja 15 manna nefnd stjórnenda á LSH í október 2002. Formaður hennar var Jóhannes M. Gunnarsson framkvæmdastjóri lækninga.
Ferliverk á LSH eru unnin á göngudeildum og dagdeildum. Á göngudeildir koma þeir sjúklingar sem ekki þurfa að leggjast inn á spítalann til meðferðar og á dagdeildir sjúklingar sem þurfa að leggjast inn til meðferðar og eftirlits en ekki að dveljast á spítalanum yfir nótt.
Fjölbreytt göngu- og dagdeildarstarfsemi er nú þegar á LSH en það er niðurstaða nefndarinnar að hana þurfi samt að efla verulega, einkum til að stuðla að frekari hagræðingu í rekstri spítalans með því að fækka innlögnum og stytta legutíma og jafnframt vegna háskólahlutverks LSH. Mynda þurfi eðlilegt flæði milli mismunandi þjónustustiga á LSH, þ.e. 7 daga-, 5 daga- og dag- og göngudeilda til að bæta þjónustu við sjúklinga. Greiður aðgangur eigi að vera að þjónustu á göngudeildum jafnt sérfræðilækna sem annarra starfsmanna spítalans. Jafnframt beri að skoða vel möguleika á að auka þjónustu sem veitt er í heimahúsum til að draga úr þörf fyrir innlögn á LSH og stytta legutíma.
Helstu tillögur nefndarinnar:
Allar sérgreinar LSH, sem veita sjúklingum meðferð með beinum samskiptum, skulu hafa göngudeildarmóttöku til að veita sérhæfða þjónustu. Lögð verði áhersla á uppbyggingu göngu- og dagdeilda til að stytta sjúkrahúsvist og auka möguleika á hagræðingu í rekstri LSH.
Allir læknar er sinna sjúklingum á legudeildum spítalans skulu jafnframt hafa tilgreindar starfsskyldur á göngudeildum. Skyldur annarra starfsmanna í þessu tilliti skulu ákvarðaðar í samræmi við skipulag starfseininga. Skilgreint verði í starfslýsingum þeirra starfsmanna spítalans er sinna störfum á göngudeild hvert starfshlutfall viðkomandi sé vegna göngudeildarvinnunnar.
Eftirlit sem nauðsynlegt er innan eins mánaðar frá útskrift fari að jafnaði fram á vegum spítalans og einnig eftirlit vegna fylgikvilla meðferðar á LSH. Hafi sjúklingur verið í langvarandi eftirliti utan sjúkrahússins er hins vegar eðlilegt að eftir útskrift verði áframhaldandi eftirliti að jafnaði vísað áfram til sama aðila.
Æskilegt er að sjúklingi sem leitar til spítalans vegna sérhæfðra vandamála gefist kostur á áframhaldandi meðferð á spítalanum ef hann vill.
Leitað verði eftir því við heilbrigðisyfirvöld að fjármögnun vegna göngudeildarþjónustu á LSH verði breytt og upp teknar verktengdar greiðslur til spítalans vegna göngudeildarverka í stað árlegra heildargreiðslna.
Dagdeildarmeðferð verði skilgreind sem hluti þeirrar starfsemi LSH sem fjármögnuð er innan ramma fjárveitinga spítalans.
Uppbygging sérhannaðs húsnæðis fyrir ferliverkastarfsemi verði eitt af forgangsverkefnum við hönnun og byggingu nýs húsnæðis spítalans. Húsnæðið verði í nánum tengslum við legudeildarhúsnæði spítalans, rannsóknardeildir og myndgreiningardeildir og ætlað fyrir bráðamóttöku, göngu- og dagdeildir og minni háttar skurðaðgerðir.