Vísindavinna starfsmanna LSH kynnt
Fréttatilkynning
"Vísindi á vordögum" nefnast árlegir vísindadagar Landspítala - háskólasjúkrahúss og verða þeir haldnir mánudag 10. og þriðjudag 11. maí 2004, nú í þriðja skiptið. Þessir dagar eru eins konar uppskeruhátíð spítalans hvað snertir vísindavinnu starfsmanna og óvenju glæsileg í ár.
Mánudaginn 10. maí verður málþing í Hringsal (gengið um anddyri barnaspítalans), þar sem kynntar verða niðurstöður á rannsóknum 5 útvalinna starfsmanna. Auk þess heldur Stefán Karlsson, vísindamaður í Lundi, erindi um rannsóknir sínar á starfi og eðli stofnfrumna. Verðlaun verða afhent efnilegum ungum vísindamanni á spítalanum og afhentir styrkir úr Vísindasjóði LSH til framtíðarverkefna.
Málþingið hefst kl. 13.00 og er öllum heimill aðgangur.
Þriðjudaginn 11. maí verður veggspjaldasýning kl. 13:00 – 17:00 í anddyri K-byggingar á Landspítala Hringbraut. Kynnt verða 50 veggspjöld með niðurstöðum úr rannsóknum hinna ýmsu fagstétta á spítalanum. Veggspjaldakynningin er öllum opin. Höfundar verða á staðnum milli kl. 15:00 og 17:00.
Meðfylgjandi er dagskrá Vísinda á vordögum.