Við Landspítala - háskólasjúkrahús starfar listmuna- og minjanefnd, skipuð af framkvæmdastjórn.
Meginhlutverk nefndarinnar er annars vegar að safna og sjá til þess að varðveittir séu og skrásettir munir og gögn er hafa sögulegt gildi fyrir allar starfseiningar spítalans og þeirra sjúkrastofnana sem hann var myndaður úr. Hins vegar hefur nefndin það hlutverk að skrá og varðveita listmuni í eigu spítalans og sjá til þess að þeir séu til sýnis á hentugum stað hverju sinni. Listmuna- og minjanefnd skal þannig leitast við að koma í veg fyrir að listmunir og munir sem hafa sögulega þýðingu skemmist eða glatist. Að þessu leyti verði nefndin einnig til ráðgjafar um varðveislugildi muna.
Listmuna- og minjanefnd skal standa fyrir því að listmunir og minjar spítalans verði starfsfólki og almenningi reglulega til sýnis, eftir tilefni hverju sinni. Nefndin hefur einnig frumkvæði að ritun efnis sem hefur sögulega þýðingu fyrir Landspítala - háskólasjúkrahús og vinnur að útgáfu þess, ef ástæða þykir til.
Listmuna- og minjanefnd starfar í nánum tengslum við Nesstofu og lækningaminjasafn Þjóðminjasafnsins og framfylgir samkomulagi spítalans og Þjóðminjasafns Íslands um samstarf við skráningu og vörslu minja.
Ákvarðanir listmuna- og minjanefndar, sem leiða af sér veruleg útgjöld fyrir spítalann, skulu hljóta staðfestingu framkvæmdastjórnar.
Nefndin birtir fundargerðir, vinnureglur og lýsingu á starfi á heimavef spítalans. Hún gerir framkvæmdastjórn jafnframt grein fyrir verkefni sínu skriflega einu sinni á ári.
Listmuna- og minjanefnd er skipuð 6 mönnum til 4 ára í senn. Forstjóri skipar formann nefndarinnar.
Reykjavík 21. apríl 2004.
_______________________________
Magnús Pétursson, forstjóri