Rjóður – hjúkrunarheimili fyrir langveik börn verður formlega opnað laugardaginn 20. mars 2004. Ingibjörg Pálmadóttir framkvæmdastjóri Velferðarsjóðs barna afhendir heilbrigðisráðherra þá lyklavöldin. Rjóður tekur síðan til starfa 1. apríl næstkomandi. Guðrún Ragnars verður deildarstjóri.
Rjóður er til húsa hjá Landspítala Kópavogi í húsi nr. 7. Þar er rými fyrir 10 langveik börn í einu í endurhæfingu og aðhlynningu en alls eru um 30-40 börn hér á landi talin þurfa á þjónustu af þessu tagi að halda - þó ekki samfellt. Hefur rekstur heimilisins verið falinn spítalanum og verður hann aðskilinn frá öðrum rekstri fjárhagslega en tengist Barnaspítala Hringsins faglega. Starfsmenn verða um 15.
Velferðarsjóður barna hefur haft veg og vanda að stofnun Rjóðurs í samvinnu við ríkið. Þetta er langstærsta verkefnið sem sjóðurinn hefur staðið að til þessa en hann var stofnaður fyrir fjórum árum af Íslenskri erfðagreiningu og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Samstarfssamningur Velferðarsjóðs barna, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Landspítala - háskólasjúkrahúss um hjúkrunarheimilið var undirritaður fyrir rúmu ári. Þar skuldbatt ríkið sig til að leggja til húsnæði og tryggja fé til reksturs heimilisins, sem áætlað er að kosti um 84 milljónir króna á ári. Velferðarsjóður barna hefur lagt fram alls 75 milljónir króna til verkefnisins. Komu 60 milljónir króna beint frá sjóðnum til endurbóta á húsnæðinu og 15 milljónir eru gjafafé sem sjóðnum hefur borist vegna heimilisins og var notað til kaupa á sérhæfðum tækjum og búnaði.
Guðrún Ragnars deildarstjóri Rjóðurs og Ingibjörg Pálmadóttir framkvæmdastjóri Velferðarsjóðs barna tylltu sér niður stutta stund í önnum við lokaundirbúning vegna opnunarinnar. |
Síðdegis á föstudegi var fjöldi manna að ljúka við uppsetningu á búnaði og tækjum í Rjóðri fyrir stóru stundina. |
. |