Barnaspítalinn fær áritaða Liverpooltreyju
Liverpoolklúbburinn á Íslandi færði Barnspítala Hringsins í dag leikmannstreyju sem leikmenn félagsins á yfirstandandi leiktímabili hafa ritað nöfn sín á. Treyjunni hefur verið komið fyrir í ramma undir gleri og verður hún hengd upp á vegg í unglingaherberginu. Sjúklingar og gestir í unglingaherberginu geta þar reynt að þekkja eiginhandaráritun stórstjarnanna í Liverpoolliðinu. Svona treyjur eru ekki á hverju strái og ekki hver sem er sem getur fengið slíkan dýrgrip. Leikmenn Liverpool árita aðeins saman á leiksmannstreyju í góðgerðarskyni, gjarnan til sjúkrahúsa. Þessa treyju fékk Liverpoolklúbburinn á Íslandi vegna þess að hann verður 10 ára 27. mars 2004. Í tilefni af afmælinu var ákveðið að færa barnaspítalanum Liverpooltreyju að gjöf, auk nokkurra myndbandsspólna og prentefnis sem Liverpoolklúbburinn gefur út. Það var formaður klúbbsins, Sigursteinn Brynjólfsson sem afhenti gjöfin fyrir hönd klúbbfélaganna. Rúmlega 1500 manns greiða árgjald í Liverpoolklúbbinn á Íslandi en alls hafa 6000 manns verið í honum frá stofnun fyrir 10 árum. Félagsstarfið er ákaflega blómlegt og meðal annars er klúbburinn með vef, www.liverpool.is, þar sem hægt er að nálgast meiri fróðleik um starfsemina og Liverpool.