"Fagráð endurhæfingarsviðs mótmælir harðlega fyrirhuguðum niðurskurði á starfsemi Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH).
Á endurhæfingarsviði er gert ráð fyrir verulegum samdrætti sem án efa mun hafa víðtækar afleiðingar. Á sviðinu vinna margar af svokölluðum stoðstéttum t.d. sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, sálfræðingar, félagsráðgjafar og prestar. Þessir fagaðilar starfa náið með læknum og hjúkrunarfólki. Starf þeirra fer fram á flestum deildum spítalans og er óaðskiljanlegur hluti meðferðar, m.a. til undirbúnings útskriftar. Hlutverk þeirra er fjölþætt og felst í þjálfun, ráðgjöf og stuðningi í því skyni að flýta fyrir bata, minnka fylgikvilla og stuðla að því sjúklingar nái sem bestri færni til að takast á við lífið á nýjan leik. Stuðningur við aðstandendur, sem oft eru í umönnunarhlutverki, er mikilvægur hluti af starfi þeirra, þar sem veikindi hafa oft mikil áhrif á fjölskyldu sjúklings, hlutverk og framtíðaráform. Fagráðið óttast að minnkun þjónustu á þessum sviðum geri spítalanum erfiðara fyrir í því meginhlutverki að vera bráðaspítali, en í því felst m.a. að sinna með ásættanlegum hætti þeim erfiðleikum, líkamlegum, sálrænum og félagslegum, sem óhjákvæmilega fylgja bráðum veikindum og slysum.
Fagráð endurhæfingarsviðs skorar á Alþingi og ríkisstjórn að endurskoða fjárveitingu til LSH nú þegar og taka höndum saman með stjórnendum spítalans í því augnamiði að skýra betur hlutverk hans, þjónustustig og rekstrarumhverfi.
Í fagráði endurhæfingarsviðs sitja félagsráðgjafi, hjúkrunarfræðingur, iðjuþjálfi, læknir, prestur, sálfræðingur, sjúkraþjálfari, talmeinafræðingur og þroskaþjálfi."