Ályktun frá fundi í Austurbæ um málefni
Landspítala - háskólasjúkrahúss
"Opinn fundur um málefni Landspítala - háskólasjúkrahúss haldinn þriðjudaginn 27. janúar í Austurbæ krefst þess að ríkisstjórn Íslands og Alþingi endurskoði fjárveitingar til sjúkrahússins. Ljóst er að sá niðurskurður á þjónustu sem nú hefur verið ráðist í stefnir öryggi sjúklinga í hættu. Með þessum aðgerðum stjórnvalda er verið að rjúfa þjóðarsátt um gott heilbrigðiskerfi og afleiðingarnar geta orðið mjög alvarlegar. Boðað hefur verið að þessar aðgerðir stjórnvalda séu einungis fyrsta skrefið í því að ná niður kostnaði í heilbrigðiskerfinu en nú þegar hefur verið of langt gengið á þeirri braut. Almannahagur er í húfi.
Fjöldauppsagnir á stærsta sjúkrahúsi landsins bitna óhjákvæmilega illilega á sjúklingum auk þess sem þetta mun hafa þær afleiðingar í för með sér að þjónusta sem veitt hefur verið á vegum sjúkrahússins verður flutt út fyrir veggi þess og biðlistar munu lengjast. Mikilvægt er að hafist verði handa um heildarskoðun á heilbrigðiskerfinu, sem m.a. miði að því að endurskoða og skýra verkaskiptingu milli heilsugæslunnar, sjúkrahúsanna og sérfræðilækna.
Landspítali - háskólasjúkrahús er stærsta og tæknivæddasta sjúkrahús landsins. Aðgerðir ríkisvaldsins nú og boðað framhald á niðurskurði er aðför að hátækni heilbrigðisþjónustu landsmanna. Með því er öryggi þjóðarinnar ógnað. Uppbygging þróaðs hátæknisjúkrahúss byggir á margra ára starfi færustu sérfræðinga og annars starfsfólks. Uppbyggingarstarfið er erfitt en eyðileggingin auðveld.
Þau samtök sem að fundinum standa: Geðhjálp, Landssamband eldri borgara, Landssamtök hjartasjúkra, Umhyggja, Öryrkjabandalag Íslands, ASÍ, BHM, BSRB og Læknafélag Íslands krefjastþess að ríkisstjórnin og Alþingi taki þegar í stað til endurskoðunar fyrri ákvörðun um fjárveitingar til LSH þannig að sjúkrahúsið geti sinnt þeirri þjónustu sem það hefur gert hingað til."