"Sálfræðilegar afleiðingar bílslysa: Áfallastreituröskun og aðrir fylgikvillar". Þetta er yfirskrift fyrirlesturs Berglindar Guðmundsdóttur MA í kennslusal á 1. hæð á Landspítala Grensási þriðjudaginn 20. janúar 2004, kl. 14:30 - 15:30.
Berglind er doktorsnemi í klínískri sálfræði við sálfræðideild Ríkisháskólans í Buffaló í New York ríki í Bandaríkjunum. Síðastliðin fjögur ár hefur hún starfað undir handleiðslu Gayle Beck, Ph.D., við rannsóknir og meðferð fórnarlamba bílslysa. Hún lauk B.A. námi í sálarfræði við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands árið 1998, öðlaðist nýverið meistaragráðu í klínískri sálarfræði frá Ríkisháskólanum í Buffaló og vinnur um þessar mundir að doktorsritgerð sinni á sviði áfallastreitu.
Efni fyrirlesturs: Á hverju ári lenda tugir Íslendinga í bílslysum. Afleiðingar bílslysa geta verið margvíslegar. Í því samhengi er oft efst í huga fjárhagslegt tjón og líkamleg meiðsli. Það er ekki fyrr en nýlega sem rannsakendur hafa beint athygli að sálfræðilegum afleiðingum bílslysa. Er þar helst að nefna áfallastreituröskun en áætlað er að á bilinu 6-40% einstaklinga sem lenda í alvarlegum bílslysum uppfylli skilmerki áfallastreituröskunar (PTSD). Auk hennar getur fjöldi annarra sálrænna fylgikvilla þróast eftir bílslys, t.d. þunglyndi og almenn kvíðaröskun. Í fyrirlestrinum verður fjallað almennt um bílslys og afleiðingar þeirra. Þá verður tekið á sálfræðilegu mati á áfallastreituröskun og öðrum fylgikvillum með áherslu á þau atriði sem auðvelda val á meðferð. Því næst verður rætt um sálfélagsleg áhrif líkamlegra meiðsla eftir bílslys. Að lokum verður fjallað um meðferð áfallastreituröskunar af völdum bílslysa og rætt um atriði sem hafa þarf í huga í því samhengi.