Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað Pálma Ragnar Pálmason verkfræðing formann stjórnarnefndar Landspítala - háskólasjúkrahúss án tilnefningar og er varamaður hans Birna Svavarsdóttir hjúkrunarforstjóri. Guðný Sverrisdóttir, sem verið hefur formaður stjórnarnefndar, gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Pálmi Ragnar átti sæti í sæti í stjórnarnefnd síðasta kjörtímabil.
Heilbrigðisráðherra hefur nú skipað stjórnarnefnd til næstu fjögurra ára skv. 30. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990. Aðrar aðalmenn en nefndur formaður eru eftirtaldir: Samkvæmt tilnefningu Alþingis: Þórir Kjartansson verkfræðingur, Margrét S. Björnsdóttir framkvæmdastjóri, Esther Guðmundsdóttir þjóðfélagsfræðingur og Margrét Sverrisdóttir framkvæmdastjóri. Varamenn þeirra eru: Auður Guðmundsdóttir markaðsstjóri, Ari Skúlason framkvæmdastjóri, Sigríður Finsen hagfræðingur og Svandís Svavarsdóttir táknmálsfræðingur.
Aðalmenn tilnefndir af starfsmannaráði Landspítala - háskólasjúkrahúss eru Egill T. Jóhannsson forstöðumaður og Már Kristjánsson yfirlæknir. Varamenn þeirra eru Ólafur Aðalsteinsson forstöðumaður og Dóra Lúðvíksdóttir sérfræðingur.
Margrét Sverrisdóttir er eini nýliðinn í hópi aðalmanna í stjórnarnefnd LSH.