Stúlknakór Reykjavíkur og kvennakórinn Vox Feminae gerðu stormandi lukku með söng sínum í menningarhorni á miðvikudegi á Barnaspítala Hringsins 10. desember 2003. Fjöldi fólks hlýddi á söng kóranna, sjúklingar, aðstandendur starfsfólk LSH og gestir. Margrét Pálmadóttir stjórnaði kórum sínum af alkunnri list og innileik.
Framundan eru fyrstu jól á Barnaspítala Hringsins. Það er því að sjálfsögðu mikið um að vera þar á aðventunni. Svo eitthvað sé nefnt, þá er leik- og grunnskólinn með skipulagða jóladagskrá sem hófst í byrjun aðventunnar með því að barnaspítalinn var skreyttur. Mikið jólaball verður 11. desember kl 15:00 og 17. desember verður sýnd jólamynd í Hringsal. Búið er að koma fyrir stóru og fallegu jólatré á jarðhæðinni og það var Arnór Freyr Gíslason sem kveikti ljósin á því í menningarhorni á miðvikudegi.