Ný hópslysaáætlun Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur verið birt á upplýsingavef LSH. Henni er ýtt úr vör með bréfi Brynjólfs Mogensens sviðsstjóra lækninga á slysa- og bráðasviði:
"Á hópslysaáætlun Landspítala - háskólasjúkrahúss hafa verið gerðar miklar breytingar frá því skipulagi sem hefur verið til staðar.
Áætlunin hefur verið einfölduð en jafnframt gerð sveigjanlegri og víðtækari. Hún er þrískipt þ.e. viðbragðsstaða, hópslys og hamfaraslys.
Í viðbragsstöðu eru mjög fáir kallaðir til en treyst á þann mannafla og þekkingu sem þegar er til staðar í húsi.
Í hópslysi verður útkallið stærra en samt um mikinn sveiganleika að ræða.
Á hamfarastigi verður umfangið svo mikið að virkja þarf að fullu Landspítala - háskólasjúkrahús.
Hópslysaáætlunin er einn þáttur af fjórum í viðbragsáætlun Landspítala - háskólasjúkrahúss. Hinir þættirnir eru "bráðir smitnæmir sjúkdómar", "eiturefni" og "geislavirk efni". Þættirnir eru í vinnslu. Sama grunnhugsun og uppbygging verður á þáttunum fjórum og notaðir verða gátlistar til þess að auðvelda vinnuna þegar á reynir.
Við óskum eftir ábendingum og athugasemdum við netútgáfu hópslysaáætlun LSH, sem verður uppfærð reglubundið. Hópslysaáætlunin verður gefin út í byrjun árs 2004.
Vinsamlegast sendið ábendingar og athugasemdir til Brynjólfs Mogensen, brynmog@landspitali.is"