Blóðbankinn fagnar 50 ára starfsafmæli með opnu húsi föstudaginn 14. nóvember 2003. Þar gefst blóðgjöfum og öðrum velunnurum bankans tækifæri til að fagna þessum tímamótum. Blóðbankabíllinn verður einnig til sýnis fyrir utan húsnæðið við Barónsstíg. Afmæliskaffi að hætti Blóðbankans verður á boðstólum fyrir gesti.
Blóðbankinn verður með hefðbundna blóðtökustarfsemi til hádegis föstudaginn 14. nóvember. Opna húsið verður síðan frá 13:00-16:00.
Blóðbankinn hóf starfsemi sína í núverandi húsnæði á horni Barónsstígs og Eiríksgötu 14. nóvember árið 1953. Blóðsöfnun hafði þó verið meðal blóðsöfnunardeildar skáta allt frá árinu 1935. Sex starfsmenn unnu fyrstu árin við blóðsöfnunina, þar af einn hjúkrunarfræðingur. Fimmtíu árum síðar eru 45 starfsmenn í sama húsnæði í Blóðbankanum, þar af 11 hjúkrunarfræðingar, 20 líffræðingar og nokkrar aðrar starfsstéttir.
Blóðbankinn safnar árlega 15.000 einingum blóðs. Virkir blóðgjafar eru 10.000 og uþb. 25% af íslenskum blóðgjöfum eru konur. Ungir nýliðar í hópi blóðgjafa skiptast þó jafnt milli kynjanna.
Árið 2002 fékk Blóðbankinn að gjöf frá Rauða krossi Íslands glæsilegan blóðbankabíl, sem hefur styrkt starf bankans við blóðsöfnun og öflun nýrra blóðgjafa. Þessi starfsemi bílsins hefur notið ómælds stuðnings fyrirtækja, félagasamtaka og byggðarlaga, og nú þegar skilað góðum árangri í starfi bankans.
Blóðbankinn sinnir hefðbundinni blóðbankaþjónustu á landsvísu. Auk þess eru í Blóðbankanum vefjaflokkunardeild sem sinnir m.a. vefjaflokkunarþjónustu við undirbúning líffæraflutninga og stofnfrumumeðferðar.
Nú í nóvember er áformað að hefja söfnun sjálfboðaliða í svonefnda beinmergsgjafaskrá, sem er samstarfsverkefni með norsku beinmergsgjafaskránni, og hefur hlotið stuðning norrænu ráðherranefndarinnar. Á afmælinu er kynntur nýr fræðslubæklingur til almenning um starfsemi Blóðbankans og nauðsyn blóðgjafa.
Á afmælinu verður skýrt frá samkomulagi um samstarfi Blóðbankans og samstarfsaðila hans um kynningu á starfi bankans, og sameiginlegu starfi við að afla nýrra blóðgjafa.
Blóðbankinn vill tileinka þennan dag ómetanlegu framlagi íslenskra blóðgjafa um meira en 50 ára skeið, sem með fórnfúsu starfi sínu eru forsenda heilbrigðisþjónustu á Íslandi í dag.
Blóðbankinn 50 ára
Blóðbankinn fagnar 50 ára starfsafmæli með opnu húsi föstudaginn 14. nóvember 2003. Þar gefst blóðgjöfum og öðrum velunnurum bankans tækifæri til að fagna þessum tímamótum. Blóðbankabíllinn verður einnig til sýnis fyrir utan húsnæðið við Barónsstíg. Afmæliskaffi að hætti Blóðbankans verður á boðstólum fyrir gesti.