Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík og verkaskipting heilbrigðisstofnana.
31. október 2003
Málþing hjúkrunarstjórnenda
Fundarstjóri, góðir fundarmenn.
Ég vil þakka forsvarmönnum deildar hjúkrunarstjórnenda fyrir að bjóða mér til þessa fundar að ræða um sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík og stöðu og verkaskiptingu milli heilbrigðisstofnana í landinu. Þetta mál er ofarlega á baugi um þessar mundir og er það vel.
Einkum ætla ég að drepa á þrjú aðalatriði; (1) sameiningu spítalanna í Reykjavík, (2) samstarf LSH og annarra sjúkrastofnana og (3) loks geta þess hver ég tel vera hin aðkallandi viðfangsefni í heilbrigðisþjónustunni almennt og spítalans sérstaklega um þessar mundir.
1. Sameining spítalanna.
Sameining spítalanna í Reykjavík var ákveðin í ársbyrjun 2000. Það verða því fjögur ár um n.k. áramót frá því þessi ákvörðun var tekin. Rifja má upp að hún var umdeild og mikið rædd bæði opinberlega og í pólitískum herbúðum. Óneitanlega setti þetta sitt mark á sameiningarstarfið á fyrstu misserum þess.
Ákvörðunin var stjórnmálalegs eðlis og hafði bein áhrif á stöðu og völd fjölda einstaklinga og hún var fyrst og fremst rökstudd á forsendum fjármála. Það var líka bent á að sameinaður spítali væri betur í stakk búinn til þess að takast á við fjölgun aldraðra, nýja tækni, almenna íbúaþróun á höfuðborgarsvæðinu og framtíðina. Þessu sjónarmiði var þó etv. meira haldið á lofti af fagfólki fremur en stjórnmálamönnum.
Í mínum huga, standa nokkur atriði upp úr þegar sl. tæp fjögur ár eru skoðuð í samhengi;
Hið fyrsta sem í huga kemur er, hvort undirbúningur sameiningarinnar hafi verið nægur? Eftir á að hyggja hefðu stjórnvöld etv. átt að undirbúa ákvörðun um sameiningu betur. Því miður var alltaf óljóst hvers menn væntu af sameiningunni. Fjárhagslegur ávinningur reis þó óefað hátt. Og hver þessi ávinningur skyldi vera, var þó afar óljóst. Miklu minna fór fyrir mögulegum faglegum ávinningi og ekkert fór fyrir þeim takmörkunum eða skorðum sem við búum við í rekstri spítalans vegna þess að það er ekki í önnur hús að venda og þjóðin fámenn.
Núna hefði ég kosið, að væntingarnar hefðu verið hófstilltari og ljósari en þegar upp var lagt. Ég er þó eindregið þeirrar skoðunar að sameining sjúkrahúsanna hafi verið bráðnauðsynleg og tímabær. Fyrir þessu hef ég fagleg, fjárhagsleg og menntunarleg rök.
Hver eru faglegu rökin? Án sameiningar stæðu flestar, ef ekki allar, sérgreinar læknisfræðinnar lakar en þær nú gera. Sem leikmaður í þessu efni tel ég að ýmsar sérgeinar hafi styrkst - stundum eftir sársaukafulla sameiningu. Hér get ég nefnt; hjartalækningar, krabbameinslækningar, þvagfæraskurðlækningar, æðaskurðlækningar og barnalækningar. Staðreynd málsins er, að þær sérgreinar sem hafa verið sameinaðar hafa yfirleitt verið endurskilgreindar. Nýir yfirmenn hafa iðulega verið valdir til starfa og nýjungar í búnaði og aðstöðu teknar upp. Hér tel ég árangurinn ótvíræðan.
Fjárhagslegu rökin eru einnig til staðar. Þar hefur náðst marktækur árangur þó svo ýmsir geri lítið úr því. Fólk staðhæfir, að reksturinn sé slæmur en þeir sem þannig tala hafa oft ekki gefið sér tíma til að kynna sér málið mjög vel. Umfjöllun um rekstur spítalans hefur þó breyst að mjög mörgu leyti. Ég nefni ykkur nokkur dæmi:
Umfjöllun um rekstur spítalans er nú til þess að gera gegnsæ og opin fyrir starfsmenn, stjórnmálamenn og almenning, en málefnið er flókið eðli máls samkvæmt. Mánaðarlega eru birtar niðurstöður um rekstur spítalans, ekki aðeins hallann svokallaða, heldur einnig um framleiðsluna. Í lok þessa árs eiga t.d. allir stjórnendur spítalans að ráða yfir þeim tækjum og þeirrri þekkingu sem þarf til þess að bera ábyrgð á rekstri. Kostnaðargreining og framsal á ráðningarvaldi eru vísbendingar um að ábyrgð stjórnenda er að verða þeim ljós og mjög margir taka hlutverk sitt hátíðlega hvað þetta varðar. Höfum einnig í huga að sviðsstjórar, sem er lykilfólk í þessu tilliti, eru valdir til fjögurra ára til starfans.
Þá get ég þess, að sameining spítalanna hefur leitt af sér undirbúning á breyttri fjármögnun spítalans og fjárhagslegum samskiptum spítala og háskóla. DRG kostnaðargreiningin er þegar farin að skila okkur árangri m.a. í samskiptum við útlend tryggingafélög og almannatryggingar. Og í okkar innra starfi er enginn efi, að margir stjórnendur eru farnir að bera sig saman við sjúkrahús í nágrannalöndum og yfirfara ýmislegt í eigin starfi.
Ennfremur verður að nefna, að þar til fyrir tveim árum hagaði þannig til að einkareknar læknastofur, t.d. í Domus, tóku blóðsýni og sendu á rannsóknarstofur LSH til úrvinnslu án þess að bera nokkra minnstu ábyrgð á kostnaði við rannsóknirnar. Þetta er nú liðin tíð m.a. vegna ákvörðunar um aðhald og betri stjórnun innan spítalans og gott samstarf við ráðuneyti og TR um breytingu hér á.
Einnig ber þess að geta að rekstrinum hefur verið þjappað töluvert saman til hagræðingar. Má hér rifja upp, að starfsemin áVífilsstöðum og í Gunnarsholti hefur verið lögð af og miklar breytingar gerðar á rekstri í Kópavogi og víðar. Viðleitnin hefur verið að þjappa spítalanum saman og fækka rúmum eins og margir þekkja.
Loks er nauðsynlegt að víkja sérstaklega að starfsmannamálum þegar fjallað er um rekstur heilbrigðisstofnana. Án starfsfólks væru þessar stofnanir einskis virði og af sjálfu leiðir að afar miklu máli skiptir hvaða stefnu og vald stjórnendur hafa á þessum málaflokki.
Það má etv. rifja upp, að á árunum milli 1990 og 1997 voru sífelld átök á vinnumarkaði sem ollu truflunum á starfsemi heilbrigðisþjónustunnar.
Almennt hefur ríkt bærilegur friður á vinnumarkaði undanfarin misseri, líka meðal heilbrigðisstétta. Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að óvæntar vinnudeilur eru eitt það versta sem getur hent starfsemi heilbrigðisstofnana.
Starfsmannamál eru áreiðanlega erfiðustu mál, sem við þurfum að takast á við. Það sem hæst rís í þessu efni á LSH er að stjórnarnefnd spítalans ákvað að yfirmenn (þ.e. sviðsstjórar/ yfirlæknar/ deildarstjórar) skyldu einungis starfa við spítalann - og háskólann ef svo ber undir - en standa ekki samtímis að einkarekstri út í bæ. Einnig var ákveðið að afnema svokallaðar ferliverkagreiðslur inni á spítalanum. - Bónuskerfi hafa margt til síns ágætis - en kerfi þar sem sumir fá greitt samkvæmt uppmælingu og aðrir ekki; getur ekki verið farsælt fyrir starfsanda og samheldni milli manna. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið rétt að marka þessa stefnu.
Því fer víðs fjarri að allir séu mér sammála og það ber að virða. Án þess að rekja málavöxtu virðist mér að þetta verði eitt erfiðasta viðfangsefnið, sem spítalinn hefur þurft að glíma við. Starfsmenn hafa látið af störfum þar sem spítalinn lagði af ferliverkagreiðslur, sem er afar slæmt, og aðrir eru sárir eftir átökin. En það má vel vera, að þessi aðgerð leiði til þess að skýrar komi fram en verið hefur, mismunur eða samanburður á rekstri opinberu stofnananna eins og LSH og einkareknu læknastofanna. Mér sýnist það ágætt, og tel að tími sé til þess kominn að faglegt mat fari fram á kostum og göllum hvors rekstrarforms um sig. Ég tel, að ákvörðun um hvert heilbrigðisþjónustan á að þróast, eigi m.a. að mótast af slíkri umfjöllun.
Framundan eru almennir kjarasamningar og fjármálaráðherra stendur frammi fyrir þeirri grundvallarspurningu, hvaða stefnu stjórnvöld taki, þegar velja þarf á milli miðlægra kjarasamninga og/eða aukinnar ábyrgðar stofnana á stofnanasamningum. Allt frá árinu 1997 hefur aðild stofnana að útfærslu og launasetningu verið að aukast, sem þarf ekki að rekja hér.
Um það er engum blöðum að fletta, að stundum hefur LSH og ýmsar aðrar heilbrigðisstofnanir ekki getað staðið af sér launakröfur starfsfólks. Ástæðurnar geta verið ýmsar: aðstæður á almennum vinnumarkaði, byggðaaðstæður þar sem illa gengur að fá fólk til starfa og slök stjórnun á launamálum.
Fjármálaráðherra hefur lýst yfir að það þurfi að beita miklu aðhaldi í næstu kjarasamningum. Hinu er ekki að leyna, að verði kjaraákvarðanir algjörlega miðlægar þá fer það gegn tíðarandanum um valddreifingu og ábyrgð á vettvangi.
Þegar öllu er á botninn hvolft tel ég, að sameiningin hafi ótvírætt leitt til marktækra framfara í rekstri LSH, bæði þekkingu á rekstrinum og ábyrgð þeirra sem að honum koma.
Um menntaþáttinn, leyfi ég mér að telja, að ef við eigum að geta haldið uppi góðri menntun heilbrigðisstétta hér á landi, verður LSH og ýmsar aðrar heilbrigðisstofnanir að sýna fram á gott faglegt starf. Annað er óviðunandi fyrir háskólann, menntamálayfirvöld og þjóðina. Að mínu mati mætti að ósekju stytta grunnnám heilbrigðisstétta og gera það enn markvissara en nú er. Við þurfum einnig að meta hvaða framhaldsmenntun við getum og viljum veita hér á landi því það hefur bæði kosti og galla að nemendur sæki framhaldsnám til útlanda. Ég held að engum blandist hugur um að LSH leikur aðalhlutverk í þessu máli og sameiningin hefur skýrt þetta viðfangsefni mjög mikið, þó að því verki sé hvergi lokið.
Þegar ný háskólalög voru sett 1998, var endurskoðun á samskiptum spítala og háskóla skotið á frest. Löggjafinn mælti svo fyrir, að HÍ og LSH skyldu semja sín á milli um hvernig haga skyldi samskiptum.
Í nútíma rekstri gengur það ekki að ein stofnun ráði starfsmenn og skipuleggi menntun nemenda sem fer síðan fram í annarri stofnun. Sameiginlegum starfsmönnum háskóla og spítala fjölgar, en þeir eru nú liðlega 100 sem er vel, en það einfaldar ekki rekstur þessarra stofnana. Og ég hef t.d. gagnrýnt það, að læknadeild H.Í. ákvað einhliða að fjölga nýnemum í deildinni úr 38 í 48 án samráðs við spítalann. Þetta er nú liðin tíð. Fundarmönnum til fróðleiks koma milli 450-500 nemendur við sögu á spítalanum á árlega og fer fjölgandi. Þetta hefur marktæk áhrif á daglegt starf á spítalanum.
Í samandregnu máli er það mín skoðun, að sameining sjúkrahúsanna hafi skilað okkur ágætlega fram á við. Væntingarnar voru óljósar og miðuðu að óskilgreindum fjárhagslegum ávinningi, sem etv. er ekki að undra eftir stöðuga umræðu á tíunda áratugnum um fjárhagsvanda sjúkrahúsanna. Mér virðist hins vegar almenn samstaða um það innan spítalans að faglega hafi okkur miðað dável. Ríkisendurskoðun vinnur nú að athugun, í samvinnu við bresku ríkisendurskoðunina hvernig sameiningin hafi tekist til og hvort okkar starfsemi standist alþjóðlegan samanburð. Það verður áhugavert að sjá hvaða niðurstöður þeir leiða fram.
2. Samstarf heilbrigðisstofnana
Þá kem ég að öðru meginmálinu; það er samstarf heilbrigðisstofnana eða verkaskipting þeirra á milli.
Það er deginum ljósara, að fjölmargar heilbrigðisstofnanir búa nú við ákveðna óvissu um framtíð sína. Stundum er þetta vegna þess að okkur þykir illa fara saman þær kröfur sem til okkar eru gerðar og þeir fjármunir sem til starfseminnar eru veittir. En fleira kemur hér til.
Við erum sjálfsagt sammála um að breytingar á okkar starfsvettvangi eru örar um þessar mundir og hef ég þá í huga 10-20 ár hvort heldur litið er til baka eða skyggnst fram á við. Það eru ekki aðeins lækningar og hjúkrun sem breytist vegna nýrra aðferða og tækni í greiningu, sérfræðiþjónustu sem er fáanleg jafnvel betri erlendis en hér á landi og nýrra lyfja svo það helsta sé nefnt. Heldur einnig búseta fólks, samgöngur og kröfur og þekking almennings á heilbrigðismálum. Ég tel, að við megum ekki líta fram hjá þessum staðreyndum, þegar við fjöllum um stöðu heilbrigðisþjónustunnar hér á landi, því hún á í erfiðleikum um þessar mundir vegna þess að við vitum ekki nægjanlega vel hvert þessi mikilsverða starfsemi er eða á að þróast.
Mig langar til að setja fram nokkrar hugmyndir til umræðu í þessu efni.
Ég tel tímabært að við flokkum heilbrigðisstofnanirnar í landinu upp að nýju. Hver flokkur um sig lýtur tilteknum leikreglum um faglega færni, almenna þjónustu, skyldur til að veita þjónustu utan sinna veggja og um þátttöku í menntun o.fl. Gerum síðan kröfu til þeirra um rekstrarárangur og veljum heppilega rekstrartilhögun.
Í fyrsta flokk fellur heilsugæslan, en hún var endanlega flutt til ríkisins í síðustu lotu endurskoðunar á verkaskiptum ríkis og sveitarfélaga. Ákveðin rök lágu hér að baki, sem etv. eiga ekki eins við nú. Rekstur heilsugæslunnar hjá tilraunasveitarfélögunum svokölluðu gefur tilefni til umhugsunar um hvort heilsugæslan er ekki heimaverkefni sveitarfélaganna einkum þar sem þau eru að stækka og eflast. Alla vega gefur reynslan í tilraunasveitarfélögunum tilefni að ætla að svo geti verið. Í flestum tilfellum mundi maður búast við, að sveitarfélögin rækju heilsugæsluna sem opinbera þjónustu, en þeim væri í sjálfu sér í sjálfsvald sett að fela öðrum þá þjónustu. Ég held að þetta mundi ekki leiða til umtalsverðrar mismunar milli fólks.
Í öðrum flokknum eru heilbrigðisstofnanir, sem eru óljós blanda af heilsugæslu, hjúkrunarheimilum og sjúkrahúsum í almennum skilningi þess orðs. Margar þessara stofnana tel ég eiga í erfiðleikum með að standa undir þeim væntingum, sem til þeirra eru gerðar. Nægir í því efni að nefna flutning slasaðra og sjúkra milli landshluta þrátt fyrir að sjúkrahús séu á svæðinu. Mér finnst vel koma til álita að fjölþætt þjónusta, þess sem ég kalla heilbrigðisstofnarnir, væri meira eða alfarið í höndum sveitarfélaganna. Þá geng ég út frá endurskilgreiningu á starfsemi þeirra frá því sem nú er. Mér heyrist heilbrigðisráðherra vera með athyglisverða hugmynd um það, að etv. ætti að færa hjúkrunarheimilin og jafnvel heilsugæsluna í umsjá sveitarfélaganna. – Ekki þarf að nefna að þetta leiðir til breytinga á tekjustofnalögum sveitarfélaga.
Í þriðja flokknum eru tvö sérgreinasjúkrahúsin: eitt fyrir sunnan og annað fyrir norðan. Ég tel að við þurfum að skoða, hvort ekki standa full rök til þess að aðgreina þessi tvö sjúkrahús frá heilsugæslunni og heilbrigðisstofnunum. Þegar grannt er skoðað, er kallað eftir aukinni sérhæfingu á mörgum sviðum heilbriðisþjónustunnar, en einnig greiðum aðgangi að daglegri þjónustu t.d. á heilsugæslustöðvum. Mér sýnist við ekki vera að mæta þessum þörfum eins og við best getum gert. Um það þarf engum blöðum að fletta að við eigum fullt í fangi að veita góða, nútíma sérfræðiþjónustu á LSH og FSA. Og það er ekki eingöngu af fjárhagslegum ástæðum heldur einnig út frá faglegu sjónarmiði. Færni í mörgum greinum byggist á endurtekningu og hópstarfi í þjónustunni. Því held ég að það eigi að fallast á sérstöðu þessarra tveggja stofnana.
Hvaða skyldur ættu þessi tvö sjúkrahús að bera? Ég ætla mér ekki þá dul að geta svo mikið sem sett fram brúklega skilgreiningu í þessu efni, hvað þá fullkomna, en nokkur atriði koma þó engu að síður í hugann.
- Ég tel að við munum þurfa að hafa okkur öll við á allra næstu árum til að geta haldið uppi hér á landi lækningum í ýmsum sérgreinum sem stenst samanburð við erlend sjúkrahús. Það verður knúð á um, að sjúklingar fari til útlanda ef líkur eru á betri þjónsutu þar. – Það verður árangurinn í starfi sem skiptir höfuðmáli.
- FSA og LSH eiga samleið í mörgum atriðum og það samstarf þarf að efla. LSH er afar mikilsvert að FSA, ekki aðeins haldi núverandi stöðu, heldur eflist sem bráðasjúkrahús með valdar sérgreinar. Með sama hætti er það hagur FSA að eiga greiðan aðgang að LSH.
- Sjúkrahúsin á Akranesi, Selfossi og Suðurnesjum hafa við ýmis vandamál að glíma; mönnun, rekstur og ótryggt framboð af sérfræðiþjónustu. Hér held ég að þurfi að huga vel að því, hvernig samspil eigi að vera milli LSH og þessara sjúkrahúsa. Sama á sjálfsagt við Norðanlands.
- Reynslan af því að læknar frá FSA og LSH fari og veiti staðbundna þjónustu virðist fremur góð. Ég held að þetta sé eitt af því sem þessir tveir spítalar ættu að vinna að. Hér nefni ég sem dæmi Sauðárkrók, Egilsstaði, Ísafjörð.
- Báðir spítalarnir hafa skyldur í menntunarmálum, bæði grunn- og endurmenntun. Ljósmæður hafi t.d. sótt endurþjálfun á Landspítala og það gefið góða raun. Þetta er dæmi um skyldur spítalanna gagnvart starfsfólki annarra stofnana. Þá deilum við ekki um, að verðandi heilbrigðisstéttum þarf að búa aðstöðu til þess að nema og afla sér þjálfunar. Það held ég að verði almennt best gert á þessum tveim spítölum.
- Loks er að nefna, að viðkvæmt viðfangsefni á LSH er, hvernig samskiptum spítalans við einkareknar læknastofur skuli hagað. LSH er að móta stefnu um göngudeildarstarfsemi í sínu starfi enda almennt litið svo á að nútíma þjónustu eigi að veita sem mest í formi dag- og göngudeilda. Það getur ekki farið hjá því að hagsmunir einkaaðila sem reka læknastofur og spítalans fara þá að skarast. –Til fróðleiks má geta þess að skráð rúm á LSH eru nú 956 en voru fast að 1500 á Reykjavíkurspítölunum þremur fyrir 10-12 árum. Ég sé fram á að rúmum kunni að fækka enn frekar verði spítalinn skilgreindur enn meira en nú er, sem bráða- og sérgreinaspítali.
3. Aðkallandi verkefni.
Loks langar mig að geta aðkallandi verkefnis í heilbrigðisþjónustunni.
Stjórnvöldum er nokkur vandi á höndum um þessar mundir. Fjármálaráðherra krefst mikils aðhalds, og helst samdráttar, í útgjöldum til heilbrigðismála. Ég lái honum það ekki í sjálfu sér. Heilbrigðisráðherrann hefur bæði skyldur og metnað til þess að veitt sé góð heilbrigðisþjónusta. Hér er orðinn opinber árekstur virðist mér. Þetta kom bersýnilega í ljós þegar fjárhagsvandi LSH var til umfjöllunar fyrir fáum vikum þegar samdráttartillögur spítalans voru til umfjöllunar. En þær tillögur voru ekki ásættanlegar.
Ég ætla að nefna fimm viðfangsefni sem verður að takast á við:
Í fyrsta lagi sýnist mér ófrávíkjanlegt að skýrar verði kveðið á um það en nú er, hver gerir hvað og hver greiðir hvað í heilbrigðisþjónustunni. Fyrir LSH er afar mikilvægt að hlutverk spítalans sé skýrara en nú er. Ella er ógerlegt að ná tökum á rekstri spítalans. Frá mínum sjónarhóli séð er ómögulegt að bera þá skyldu að eiga að veita öllum úrlausn hvenær sem eftir er kallað og hver sem í hlut á, án þess að samfélagið viðurkenni það hlutverk. Um þetta verðum við að finna sátt.
Ýmsir telja þessa stofnun of stóra og aðrir að hún megi ekki vera minni, ef hún á að standa undir nafni sem kennslustofnun með breiða fagþekkingu. Til samanburðar verður að hafa í huga að á Norðurlöndum, svo ég tali ekki um engilsaxnesku löndin, er talið að minnst eina milljón íbúa þurfi til að standa undir rekstri góðs háskólaspítala. Ég tel því einkar mikilvægt að stjórnvöld ákveði hvernig skipta skuli verkefnum milli hinna mismunandi aðila sem veita heilbrigðisþjónustu.
Ég fagna því að heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að setja á fót nefnd stjórnmálamanna, embættismanna og fulltrúa stéttarfélaga heilbrigðisstarfsfólks, sem hefur það hlutverk að gera tillögur um verkaskiptingu í heilbrigðisþjónustunni. Hluti af þessu verkefni hlýtur að vera að fjalla um, hvað skuli unnið undir formerkjum opinberra aðila og hvað leyst af einkaaðilum.
Í öðru lagi má vel vera, að við séum að nálgast það stig að við þurfum að fara að huga að því hve langt eiga lækningarnar að ganga? Hér er hreyft siðfræðilegu málefni, en það er hagfræðilegt einnig. Um það er ekki blöðum að fletta, að í ýmsum nágrannalöndum er hálfopinber stefna um t.d. hve langt er gengið í lækningum aldraðra. Etv. erum við að nálgast þetta stig.
Í þriðja lagi verður að breyta fjármögnun í heilbrigðisþjónustunni. Ég hef þegar vikið að því að spítalinn er kominn vel á veg með að undirbúa breytta fjármögnun með hinu, svokallaða DRG kerfi. Kjarni þess máls er sá, að ákvörðunin og ábyrgð á þjónustustigum kemur þá til með að færast mun nær þeim stjórnvöldum sem veita fjármuni. Hvort það stjórnvald vill axla slíka aðild og ábyrgð verður fróðlegt að sjá, en undan því hafa menn ekki vikist í öðrum löndum.
Fjórða atriðið sem ég vil nefna er grundvallarhlutverk almanna-trygginganna. Allir eru sammála um að heilbrigðisþjónustan er óseðjandi á mannafla og fjármuni, eins og stundum er sagt. Þjónustueftirspurnin nú til dags er að vissu marki búin til og okkur reynist æ erfiðara að greina á milli þess, sem telst heilbrigðisviðfangsefni og hvað flokkast undir aðrar þarfir t.d. lýtalækningar eða jafnvel tískulækningar. Hver á, og hvernig eigum við, að ákveða hvað skuli veita undir sameiginlegum merkjum almannatrygginga og/eða opinberra stofnana og hvað við getum litið á sem frjáls kaup einstaklinga?
Í fimmta og síðasta lagi held ég, að við þurfum einnig að endurskoða afstöðu okkar til þess, hvernig fjármuna er aflað til að standa undir heilbrigðisþjónustunni. Auknir skattar koma stundum í hugann, en það er ekki nauðsynlega það farsælasta ef við þurfum að hemja eftirspurnina. Mér þykir t.d. að stjórnvöld hafi gengið óþarflega langt í því að hafna þjónustugjöldum sem aðhaldstæki og leið til þess að standa undir þeim þáttum þjónustunnar sem oft er á mörkum þess sem við teljum heilbrigðismál.
Í lokin horfir málið þannig við mér;
(1) að ekki er fallist á að dregið sé úr þjónsustu LSH í grundvallaratriðum - þvert á móti,
(2) skatttekjur eru takmarkaðri en áður, óháð því hvort það stafar af skattstiginu eða skiptingu skattteknanna innan hins opinbera og
(3) fjármunir einstaklinga í formi þjónustugjalda eða fullrar greiðslu stríðir gegn sjónarmiðum um jafnræði landsmanna til heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag.
Þessi jafna gengur því engan veginn upp.
Takk fyrir.