Göngudeild geðsviðs LSH að Kleppi opnar aðstöðu/athvarf fyrir langveika sjúklinga miðvikudaginn 29. október 2003. Aðstaðan verður til sýnis sama dag milli kl. 12:00 og 13.00.
Á göngudeild geðsviðs að Kleppi kemur fjöldi sjúklinga á ári hverju og nýtur margvíslegrar þjónustu fagfólks. Meirihluti þeirra þjáist af langvinnum geðsjúkdómum sem leiða m.a. til einangrunar og óvirkni.
Göngudeildin hefur lengstum verið rekin í afar þröngu húsnæði sem hefur takmarkað þjónustu sem hægt var að bjóða upp á. Starfsfólk göngudeildar hefur unnið að því síðastliðin misseri að bæta aðstöðu sjúklinga sinna og koma betur til móts við þarfir þeirra og auka gæði þjónustunnar. Nú hefur boðist aðstaða í göngudeildar- og skrifstofubyggingunni við Klepp þar sem verður athvarf/aðstaða fyrir sjúklinga sem leita til göngudeildarinnar varðandi eftirlit eða framhaldsmeðferð.