Í dag hafa stjórnendur Landspítala-háskólasjúkrahúss og yfirlæknir á BUGL gert sátt um ágreining sín á milli sem varðar tiltekna stjórnunarhætti og starfrækslu sjálfstæðrar lækningastofu yfirlæknisins. Í henni felst að ágreiningur og ávirðingar á hendur yfirlækninum eru felldar úr gildi. Á móti fellst yfirlæknirinn á að taka fullt tillit til ábendinga, sjónarmiða og athugasemda sem settar hafa verið fram í bréfum forstjóra og lækningaforstjóra spítalans til yfirlæknisins.
Það er sameiginlegur vilji aðila að vinna markvisst að því að efla starfsemi BUGL og munu stjórnendur spítalans skoða breytt stjórnskipulag BUGL m.a. með hliðsjón af tillögum yfirlæknisins þar um. Reynt verður að finna lausn sem mun efla BUGL faglega og rekstrarlega og fellur að gildandi stjórnfyrirkomulagi LSH.
Í samræmi við samþykkt stjórnarnefndar LSH, frá 13. desember 2001, um ráðningar og starfsskyldur yfirmanna, mun yfirlæknirinn hætta rekstri sjálfstæðrar lækningastofu samhliða því sem LSH mun að sínu leyti leitast við að bæta aðstöðu göngudeildar BUGL og á þann hátt skapa aðstæður til að hann geti helgað sig starfsemi LSH.