Vísindadagur lyflækna var haldinn föstudaginn 16.maí 2003 í sal Læknafélags Íslands í í Hlíðarsmára. Þórður Harðarson setti fundinn og fagnaði endurvakningu þessa dags en áður fyrr var vísindadagur lyflækna haldinn annað hvert ár á móti lyflæknaþinginu. Síðustu árin hefur ekki verið svona vísindadagur en Þórður sagðist vona að sérfræðingar lyflækningasviða tækju framtakinu vel.
Ólafur Baldursson sérfræðingur í lungnalækningum hlaut kennsluverðlaun á vísindadeginum. Fulltrúi unglækna, Guðni A. Guðnason, afhenti kennsluverðlaunin en þau fær sá eða sú sem þykir hafa skarað fram úr við kennslu aðstoðar- og deildarlækna. Að þessu sinni var beitt netatkvæðagreiðslu í valinu. Þó nokkrir voru nefndir til sögunnar en það var álit flestra að Ólafur hefði skaraði framúr á þessu sviði. Ólafur þakkaði heiðurinn og sagði að hann hefði reynt að vera alltaf með hugann við kennsluhlutverk sitt á stofnuninni óháð tíma og stað. Sér þætti verðlaunin afar hvetjandi, bæði fyrir sjálfan sig og vonandi einnig aðra sérfræðinga.
Á vísindadegi lyflækninga var fluttur fjöldi erinda. Öll efnin þóttu áhugaverð og sérlega vel unnin. Dómnefnd skipuðu Ófeigur T. Þorgeirsson og Magnús Jóhannsson og voru þeir sammála um að Unnur Steina Björnsdóttir stæði öðrum framar að þessu sinni. Guðbjörg Alfreðsdóttir hjá Pharmanor afhenti henni peningaverðlaun og að lokum var boðið upp á ljúffengar veitingar, einnig á vegum Pharmanor.
Þrátt fyrir ágæta mætingu sérfræðinga þótti mæting af hálfu unglækna, sem var engin fyrir utan áðurnefndan Guðna, setja blett á annars vel heppnaðan dag.