Ný ríkisstjórn tekur við völdum í dag, föstudag 23. maí 2003. Jón Kristjánsson verður áfram heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar hefur verið gerð opinber og er hún birt á mbl.is. Í henni segir eftirfarandi um heilbrigðismál:
" Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vill enn bæta þjónustu í heilbrigðiskerfinu og auka skilvirkni í einstökum þáttum þess. Haldið verður áfram uppbyggingu í menntakerfinu með það að markmiði að Íslendingar skipi sér enn sem fyrr á bekk meðal fremstu þjóða heims."
Meðal markmiða:
"Að allir landsmenn hafi greiðan og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, óháð aldri, búsetu og efnahag. Nauðsynlegt er að verja fjármunum sem best og nýta kosti breyttra rekstrarforma og þjónustusamninga um einstaka þætti þar sem það á við til að tryggja góða þjónustu, án þess að dregið verði úr rétti allra til að nota heilbrigðisþjónustu. Efla þarf heilsugæsluna sem hornstein heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Áfram verði unnið að aukinni þjónustu við geðfatlaða. Sérstaklega þarf að huga að börnum og unglingum með geðraskanir og þroskafrávik. Treysta þarf stuðning við fatlaða og geðsjúka, m.a. með auknu framboði á skammtímavistun og annarri stoðþjónustu. Langveikum verði gert kleift að takast á við veikindi sín með fjárhagslegum og félagslegum stuðningi."