Sigríður Þormóðsdóttir hefur verið ráðin yfirmaður deildar gæðamála og innri endurskoðunar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Deildin er ný og heyrir undir forstjóra. Hlutverk hennar er að móta stefnu um gæðaeftirlit og endurskoðunarstarf á sjúkrahúsinu. Hún hefur umsjón með skipulagningu gæðastarfs og leiðir umræðu um gæðamál og innri endurskoðun. Hún á einnig að annast eftirlit og ráðgjöf á sínu sviði.
Sigríður er líffræðingur, hefur auk þess MBA próf og er menntuð í gæðastjórnun í heilbrigðisþjónustu. Hún er núna gæðastjóri í NorChip, norsku líftæknifyrirtæki, en hefur meðal annars sinnt kennslu og ráðgjöf í líffræði og gæðastarfi hér heima. Sigríður var áður, meðal annars, gæðastjóri í Blóðbankanum frá 1994 til 2001. Hún kemur til starfa 1. ágúst í sumar.