Ársfundur LSH 2003
15. maí 2003
í nýjum fyrirlestrasal við barnaspítalann
Guðný Sverrisdóttir formaður stjórnarnefndar
Heilbrigðisráðherra, góðir gestir!
Árið 2002 verður örugglega skráð sem mjög viðburðaríkt í sögu Landspítala - háskólasjúkrahúss. Haldið hefur verið áfram af miklum krafti þeirri mótun nýs spítala sem hófst með sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík árið 2000. Því verki er vissulega ekki lokið en mörgu hefur tekist að þoka áfram í þeirri viðleitni að gera spítalann stöðugt betri og hæfari til að gegna hlutverki sínu í þjónustu við sjúklinga, í vísindastarfi og kennslu heilbrigðisstétta.
Landspítali er að treysta sig í sessi sem öflugt háskólasjúkrahús. Samningur um samstarf hans og Háskóla Íslands liggur fyrir og er mjög mikilvægur til þess að skýra og skerpa snertifleti þessara tveggja meginstofnana íslenskra heilbrigðisvísinda. Flestir lausir endar í skipulagi samstarfsins hafa verið hnýttir. Þó er eftir mikilvægur hluti samningsins, það er að varpa skýrara ljósi á fjármálin. Skipting kostnaðar vegna menntunar og þjálfunar heilbrigðisstétta, sem spítalinn og háskólinn standa sameiginlega fyrir, er enn mjög óljós og illa skilgreind. Það stendur vonandi til bóta. Landspítali hefur einnig gengið frá samstarfssamningi við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, sem m.a. tekur á kennslu og vísindastarfi en einkum sameiginlegum málum sem styrkja báðar stofnanir. Landspítali á að þjóna öllum landsmönnum og vill sýna það í verki með því að eiga góð samskipti við aðrar heilbrigðisstofnanir í landinu.
Lokið var við byggingu Barnaspítala Hringsins og hann formlega opnaður í janúar 2003. Nú er starfsemin flutt í nýbygginguna og er öll aðstaða fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsmenn til fyrirmyndar. Hér með er öllum þakkað sem lagt hafa hönd á plóginn við að gera nýja barnaspítalann eins glæsilegan og raun ber vitni. Ég vona að halli ekki á neinn þótt ég minnist sérstaklega á Hringskonur varðandi uppbyggingu spítalans. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með starfi þeirra í gegnum árin og sjá hverju samtakamáttur kvenna nær að skila.
Þegar skipulag Landspítala var ákveðið á árinu 2000 var jafnframt samþykkt að meginskipulag hans, þ.e. sviðakerfið, yrði yfirfarið að tveimur árum liðnum. Nú er þeirri endurskipulagningu lokið og nokkrar breytingar hafa verið gerðar á skipulagi sviða til að sníða af vankanta sem þóttu vera á fyrra skipulagi. Þessi endurskipulagning hefur ekki verið með öllu átakalaus, eins og sést til dæmis varðandi ákvarðanir um breyttan rekstur lyfjamála á spítalanum. Þar takast á fagleg og rekstrarleg sjónarmið varðandi stjórnun á starfsemi. Sú stefna sem tekin var, þegar sjúkrahúsin voru sameinuð, við að velja stjórnendur til að stýra sviðum spítalans, hefur reynst farsæl. Frá henni vill stjórnarnefndin ekki hvika.
Unnið var áfram að sameiningu sérgreina með tilheyrandi flutningi þeirra á milli staða. Þessu hefur fylgt nokkurt umrót en verkinu lýkur að mestu á þessu ári og þá treystum við því að hafa betri og hagkvæmari stofnun, betri starfsaðstöðu og að hafa bætt þjónustu við sjúklinga. Í tengslum við þessar miklu breytingar hefur talsvert af húsnæði spítalans verið endurbætt en víst er að enn er margt óunnið í þeim efnum, enda megnið af húsnæðinu komið til ára sinna. Því ætti ekki að koma neinum á óvart að talsverðu fé þarf á hverju ári að verja til viðhalds á húsnæði. Eins er með tækjakostinn, honum verður stöðugt að halda við, svo mikilvægur sem hátæknibúnaður er í rekstri nútíma sjúkrahúss.
Það er augljóst að spítalinn getur ekki endalaust mætt kröfum um aukna þjónustu án þess að fá til þess meira fé á fjárlögum. Segja má að á spítalanum hafi verið hagrætt eins og mögulegt er án þess að skerða þjónustu og víðast farið að endimörkum. Breytingar á fjárframlögum til spítalans þýða þess vegna núna óhjákvæmilega breytingar á þjónustu. Því verður ekki neitað að peningar ráða mestu um þá þjónustu sem spítalanum er fært að veita hverju sinni. Það er hlutverk stjórnenda hans að reka starfsemina innan ramma fjárlaga sem getur reynst örðugt ef rekstrarfé er naumt skammtað. Spítalanum er þá nauðugur sá kostur að forgangsraða og slá skjaldborg um hlutverk stofnunarinnar í bráðaþjónustu.
Breytt skipulag, bætt aðstaða og sérstök fjárveiting hefur leitt til þess að biðlistar hafa styst tölvuvert. Nýjar og fullkomnar skurðstofur verður að nýta enn betur, gera fleiri aðgerðir og halda áfram að stytta biðlistana verulega. Biðlistar geta verið eðlilegir en böl ef þeir eru of langir. Heilbrigðisyfirvöld og spítalinn ættu að taka höndum saman um að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að enginn sjúklingur þurfi að bíða lengur eftir aðgerð en í þrjá mánuði. Þegar á heildina er litið er það hagkvæmur kostur, ekki aðeins fyrir sjúklinginn heldur samfélagið allt.
Landspítali - háskólasjúkrahús var rekinn með rúmlega 2% halla, á reglubundinni starfsemi, árið 2002. Hallarekstur hefur verið viðvarandi en ekki verður samt hjá því litið að góður árangur hefur náðst í rekstri og stjórnun eftir sameiningu sjúkrahúsanna. Á föstu verðlagi hækkaði rekstrarkostnaður spítalanna árlega frá 1996-1999. Með sameiningunni tókst að stöðva þessa þróun og kostnaður við reksturinn hefur lækkað í heild, ef nokkuð er, á föstu verðlagi. Það hlýtur að teljast góður árangur. Ríkisendurskoðun vinnur nú að úttekt á því hverju sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík skilaði, ekki aðeins fjárhagslega heldur líka faglega. Úttektin er unnin í samstarfi við Ríkisendurskoðun Bretlands, sem hefur mikla reynslu í úttekt á starfsemi sjúkrahúsa. Vænta má skýrslunnar nú á haustdögum.
Margt af því sem gert hefur verið til að bæta starfsemi og þjónustu spítalans miðast við að árangur skili sér strax. Öðru er ætlað að leiða til endurbóta á næstu árum. Varðandi reksturinn er til dæmis unnið af krafti að því að færa DRG-kerfi inn í starfsemina og er stefnt að því að ljúka kostnaðargreiningu spítalans um mitt ár 2004. Þessi vinna er forsenda fyrir því að hægt verði að miða fjárveitingar til spítalans við þá þjónustu sem honum er ætlað að veita.
Á sama tíma og unnið er að framtíðarlausnum þarf nú, þegar sameiningunni er að mestu lokið, að snúa sér enn meira að að því að bæta innra starf og mæta stöðugt ákveðnari kröfum almennings og sjúklinga um aukin gæði. Frammi fyrir slíku stendur spítalinn á sama tíma og hann verður að mæta stöðugt auknum verkefnum vegna fjölgunar íbúa á höfuðborgarsvæðinu og breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar. Öldruðum fjölgar hratt næstu áratugina og við því verða stjórnvöld að bregðast, áður en í óefni er komið, með því að móta skýra stefnu varðandi hlutverk spítalans og framfylgja henni.
Styrkur Landspítala liggur í þekkingu og færni starfsfólksins. Stjórnskipulag stofnunarinnar og starfsemi þarf hverju sinni að vera þannig að Landspítali - háskólasjúkrahús sé eftirsóknarverður vinnustaður og þar ríki andrúmsloft sem hvetur til stöðugrar þekkingarleitar og viðleitni til umbóta í starfi og þjónustu. Ánægt starfsfólk er ómetanlegur auður og við verðum að kappkosta að hlúa að hollustu þess við spítalann á, hverju sem gengur.
Þetta fólk vill umfram allt horfa fram á veginn og hjálpa til við að leggja grunn að styrkum rekstri spítalans í framtíðinni.
Snemma árs 2002 skilaði starfsnefnd, undir forystu Ingibjargar Pálmadóttur, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, áliti sínu um framtíðaruppbyggingu Landspítala - háskólasjúkrahúss. Lagt var til að byggja upp á einum stað, þ.e. við Hringbraut. Í kjölfarið skipaði heilbrigðisráðherra aðra nefnd sem er ætlað að vinna að deiliskipulagi og samningum vegna lóðamála. Við hljótum að vænta mikils af starfi þessarar nefndar og jafnframt brýna þá sem nú vinna að myndun nýrrar ríkisstjórnar að víkja ekki af þeirri braut uppbyggingar og sóknar til framtíðar sem hefur einkennt mótun Landspítala - háskólasjúkrahúss. Það verða örugglega margir sem fletta upp á því í væntanlegum stjórnarsáttmála hvað þar verður sagt um spítalann.
Góðir gestir!
Stjórnarnefndin ákvað að taka saman lítið kver um mótun spítalans síðastliðin þrjú ár. Margrét S. Björnsdóttir stjórnarnefndarmaður fer nánar yfir það hér á eftir. Þetta kver sýnir glöggt að mörgu hefur verið áorkað en betur má ef duga skal.
Þetta er síðasti ársfundur sitjandi stjórnarnefndar. Það fólk sem er í stjórnarnefndinni kemur úr ólíkum hópum samfélagsins og er tilnefnt bæði af stjórnmálaflokkum og starfsmönnum. Að mínu mati hefur hver einstaklingur spilað sína stöðu vel og hefur liðið í heild lagt sig fram við að móta góðan spítala. Mikil eining hefur ríkt innan stjórnarnefndarinnar. Visslega eru stundum skiptar skoðanir, slíkt er heilbrigt og eðlilegt og einungis vísbending um styrk. En stjórnarnefndin væri lítils megnug ef hún hefði ekki við hlið sér vaska stjórnendur og aðra starfsmenn spítalans. Þá hefur samstarf við læknaráð og hjúkrunarráð spítalans verið farsælt og vaxandi.
Ég vil að lokum þakka stjórnarnefnd, framkvæmdastjórn og öllu starfsfólki Landspítala - háskólasjúkrahúss fyrir góð kynni og gott samstarf. Þakkir færi ég líka öllum þeim sem hafa margvíslega stutt starfsemina, meðal annars með gjöfum, stórum og smáum. Þessi ár í starfi formanns stjórnar Landspítala - háskólasjúkrahúss hafa verið mér lærdómsrík og skemmtileg.
15. maí 2003
í nýjum fyrirlestrasal við barnaspítalann
Guðný Sverrisdóttir formaður stjórnarnefndar
Heilbrigðisráðherra, góðir gestir!
Árið 2002 verður örugglega skráð sem mjög viðburðaríkt í sögu Landspítala - háskólasjúkrahúss. Haldið hefur verið áfram af miklum krafti þeirri mótun nýs spítala sem hófst með sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík árið 2000. Því verki er vissulega ekki lokið en mörgu hefur tekist að þoka áfram í þeirri viðleitni að gera spítalann stöðugt betri og hæfari til að gegna hlutverki sínu í þjónustu við sjúklinga, í vísindastarfi og kennslu heilbrigðisstétta.
Landspítali er að treysta sig í sessi sem öflugt háskólasjúkrahús. Samningur um samstarf hans og Háskóla Íslands liggur fyrir og er mjög mikilvægur til þess að skýra og skerpa snertifleti þessara tveggja meginstofnana íslenskra heilbrigðisvísinda. Flestir lausir endar í skipulagi samstarfsins hafa verið hnýttir. Þó er eftir mikilvægur hluti samningsins, það er að varpa skýrara ljósi á fjármálin. Skipting kostnaðar vegna menntunar og þjálfunar heilbrigðisstétta, sem spítalinn og háskólinn standa sameiginlega fyrir, er enn mjög óljós og illa skilgreind. Það stendur vonandi til bóta. Landspítali hefur einnig gengið frá samstarfssamningi við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, sem m.a. tekur á kennslu og vísindastarfi en einkum sameiginlegum málum sem styrkja báðar stofnanir. Landspítali á að þjóna öllum landsmönnum og vill sýna það í verki með því að eiga góð samskipti við aðrar heilbrigðisstofnanir í landinu.
Lokið var við byggingu Barnaspítala Hringsins og hann formlega opnaður í janúar 2003. Nú er starfsemin flutt í nýbygginguna og er öll aðstaða fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsmenn til fyrirmyndar. Hér með er öllum þakkað sem lagt hafa hönd á plóginn við að gera nýja barnaspítalann eins glæsilegan og raun ber vitni. Ég vona að halli ekki á neinn þótt ég minnist sérstaklega á Hringskonur varðandi uppbyggingu spítalans. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með starfi þeirra í gegnum árin og sjá hverju samtakamáttur kvenna nær að skila.
Þegar skipulag Landspítala var ákveðið á árinu 2000 var jafnframt samþykkt að meginskipulag hans, þ.e. sviðakerfið, yrði yfirfarið að tveimur árum liðnum. Nú er þeirri endurskipulagningu lokið og nokkrar breytingar hafa verið gerðar á skipulagi sviða til að sníða af vankanta sem þóttu vera á fyrra skipulagi. Þessi endurskipulagning hefur ekki verið með öllu átakalaus, eins og sést til dæmis varðandi ákvarðanir um breyttan rekstur lyfjamála á spítalanum. Þar takast á fagleg og rekstrarleg sjónarmið varðandi stjórnun á starfsemi. Sú stefna sem tekin var, þegar sjúkrahúsin voru sameinuð, við að velja stjórnendur til að stýra sviðum spítalans, hefur reynst farsæl. Frá henni vill stjórnarnefndin ekki hvika.
Unnið var áfram að sameiningu sérgreina með tilheyrandi flutningi þeirra á milli staða. Þessu hefur fylgt nokkurt umrót en verkinu lýkur að mestu á þessu ári og þá treystum við því að hafa betri og hagkvæmari stofnun, betri starfsaðstöðu og að hafa bætt þjónustu við sjúklinga. Í tengslum við þessar miklu breytingar hefur talsvert af húsnæði spítalans verið endurbætt en víst er að enn er margt óunnið í þeim efnum, enda megnið af húsnæðinu komið til ára sinna. Því ætti ekki að koma neinum á óvart að talsverðu fé þarf á hverju ári að verja til viðhalds á húsnæði. Eins er með tækjakostinn, honum verður stöðugt að halda við, svo mikilvægur sem hátæknibúnaður er í rekstri nútíma sjúkrahúss.
Það er augljóst að spítalinn getur ekki endalaust mætt kröfum um aukna þjónustu án þess að fá til þess meira fé á fjárlögum. Segja má að á spítalanum hafi verið hagrætt eins og mögulegt er án þess að skerða þjónustu og víðast farið að endimörkum. Breytingar á fjárframlögum til spítalans þýða þess vegna núna óhjákvæmilega breytingar á þjónustu. Því verður ekki neitað að peningar ráða mestu um þá þjónustu sem spítalanum er fært að veita hverju sinni. Það er hlutverk stjórnenda hans að reka starfsemina innan ramma fjárlaga sem getur reynst örðugt ef rekstrarfé er naumt skammtað. Spítalanum er þá nauðugur sá kostur að forgangsraða og slá skjaldborg um hlutverk stofnunarinnar í bráðaþjónustu.
Breytt skipulag, bætt aðstaða og sérstök fjárveiting hefur leitt til þess að biðlistar hafa styst tölvuvert. Nýjar og fullkomnar skurðstofur verður að nýta enn betur, gera fleiri aðgerðir og halda áfram að stytta biðlistana verulega. Biðlistar geta verið eðlilegir en böl ef þeir eru of langir. Heilbrigðisyfirvöld og spítalinn ættu að taka höndum saman um að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að enginn sjúklingur þurfi að bíða lengur eftir aðgerð en í þrjá mánuði. Þegar á heildina er litið er það hagkvæmur kostur, ekki aðeins fyrir sjúklinginn heldur samfélagið allt.
Landspítali - háskólasjúkrahús var rekinn með rúmlega 2% halla, á reglubundinni starfsemi, árið 2002. Hallarekstur hefur verið viðvarandi en ekki verður samt hjá því litið að góður árangur hefur náðst í rekstri og stjórnun eftir sameiningu sjúkrahúsanna. Á föstu verðlagi hækkaði rekstrarkostnaður spítalanna árlega frá 1996-1999. Með sameiningunni tókst að stöðva þessa þróun og kostnaður við reksturinn hefur lækkað í heild, ef nokkuð er, á föstu verðlagi. Það hlýtur að teljast góður árangur. Ríkisendurskoðun vinnur nú að úttekt á því hverju sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík skilaði, ekki aðeins fjárhagslega heldur líka faglega. Úttektin er unnin í samstarfi við Ríkisendurskoðun Bretlands, sem hefur mikla reynslu í úttekt á starfsemi sjúkrahúsa. Vænta má skýrslunnar nú á haustdögum.
Margt af því sem gert hefur verið til að bæta starfsemi og þjónustu spítalans miðast við að árangur skili sér strax. Öðru er ætlað að leiða til endurbóta á næstu árum. Varðandi reksturinn er til dæmis unnið af krafti að því að færa DRG-kerfi inn í starfsemina og er stefnt að því að ljúka kostnaðargreiningu spítalans um mitt ár 2004. Þessi vinna er forsenda fyrir því að hægt verði að miða fjárveitingar til spítalans við þá þjónustu sem honum er ætlað að veita.
Á sama tíma og unnið er að framtíðarlausnum þarf nú, þegar sameiningunni er að mestu lokið, að snúa sér enn meira að að því að bæta innra starf og mæta stöðugt ákveðnari kröfum almennings og sjúklinga um aukin gæði. Frammi fyrir slíku stendur spítalinn á sama tíma og hann verður að mæta stöðugt auknum verkefnum vegna fjölgunar íbúa á höfuðborgarsvæðinu og breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar. Öldruðum fjölgar hratt næstu áratugina og við því verða stjórnvöld að bregðast, áður en í óefni er komið, með því að móta skýra stefnu varðandi hlutverk spítalans og framfylgja henni.
Styrkur Landspítala liggur í þekkingu og færni starfsfólksins. Stjórnskipulag stofnunarinnar og starfsemi þarf hverju sinni að vera þannig að Landspítali - háskólasjúkrahús sé eftirsóknarverður vinnustaður og þar ríki andrúmsloft sem hvetur til stöðugrar þekkingarleitar og viðleitni til umbóta í starfi og þjónustu. Ánægt starfsfólk er ómetanlegur auður og við verðum að kappkosta að hlúa að hollustu þess við spítalann á, hverju sem gengur.
Þetta fólk vill umfram allt horfa fram á veginn og hjálpa til við að leggja grunn að styrkum rekstri spítalans í framtíðinni.
Snemma árs 2002 skilaði starfsnefnd, undir forystu Ingibjargar Pálmadóttur, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, áliti sínu um framtíðaruppbyggingu Landspítala - háskólasjúkrahúss. Lagt var til að byggja upp á einum stað, þ.e. við Hringbraut. Í kjölfarið skipaði heilbrigðisráðherra aðra nefnd sem er ætlað að vinna að deiliskipulagi og samningum vegna lóðamála. Við hljótum að vænta mikils af starfi þessarar nefndar og jafnframt brýna þá sem nú vinna að myndun nýrrar ríkisstjórnar að víkja ekki af þeirri braut uppbyggingar og sóknar til framtíðar sem hefur einkennt mótun Landspítala - háskólasjúkrahúss. Það verða örugglega margir sem fletta upp á því í væntanlegum stjórnarsáttmála hvað þar verður sagt um spítalann.
Góðir gestir!
Stjórnarnefndin ákvað að taka saman lítið kver um mótun spítalans síðastliðin þrjú ár. Margrét S. Björnsdóttir stjórnarnefndarmaður fer nánar yfir það hér á eftir. Þetta kver sýnir glöggt að mörgu hefur verið áorkað en betur má ef duga skal.
Þetta er síðasti ársfundur sitjandi stjórnarnefndar. Það fólk sem er í stjórnarnefndinni kemur úr ólíkum hópum samfélagsins og er tilnefnt bæði af stjórnmálaflokkum og starfsmönnum. Að mínu mati hefur hver einstaklingur spilað sína stöðu vel og hefur liðið í heild lagt sig fram við að móta góðan spítala. Mikil eining hefur ríkt innan stjórnarnefndarinnar. Visslega eru stundum skiptar skoðanir, slíkt er heilbrigt og eðlilegt og einungis vísbending um styrk. En stjórnarnefndin væri lítils megnug ef hún hefði ekki við hlið sér vaska stjórnendur og aðra starfsmenn spítalans. Þá hefur samstarf við læknaráð og hjúkrunarráð spítalans verið farsælt og vaxandi.
Ég vil að lokum þakka stjórnarnefnd, framkvæmdastjórn og öllu starfsfólki Landspítala - háskólasjúkrahúss fyrir góð kynni og gott samstarf. Þakkir færi ég líka öllum þeim sem hafa margvíslega stutt starfsemina, meðal annars með gjöfum, stórum og smáum. Þessi ár í starfi formanns stjórnar Landspítala - háskólasjúkrahúss hafa verið mér lærdómsrík og skemmtileg.