17. mars 2003
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur gefið út viðvörun vegna heilkennis alvarlegrar, bráðrar lungnabólgu (HABL) (e.: Severe Acute Respiratory Syndrome, SARS), sem greinst hefur í Kína, Víetnam, Hong Kong, Indónesíu, Filippseyjum, Singapore, Thailandi og Kanada.
Faraldurinn virðist hafa byrjað um miðjan nóvember 2002 í Guangdong héraði í Kína. Þar hafa greinst 305 tilfelli, þar af um þriðjungur í heilbrigðisstarfsmönnum. Vitað er um 5 dauðsföll í Kína. Síðan hafa borist tilkynningar um hátt í 150 grunsamleg tilfelli, flest meðal heilbrigðisstarfsmanna, sem annast hafa sjúklinga með HABL og meðal fjölskyldumeðlima sjúklinga. Langflest tilfellin hafa verið í Hanoi í Víetnam og í Hong Kong, en einnig hefur verið tilkynnt um tilfelli frá fleiri stöðum í Austur-Asíu, s.s. Singapore, Taiwan, Filippseyjum, Indónesíu og Thailandi. Í Kanada hafa greinst 6-8 tilfelli (þar af 2 dauðsföll). Fyrsta tilfellið þar var kona nýkomin úr ferð frá Hong Kong og smitaðist fjölskylda hennar og einn heilbrigðisstarfsmaður. Einn flugfarþegi í flugi frá New York til Frankfurt (læknir frá Singapore), ásamt samferðafólki (eiginkonu og vini) er í einangrun á sjúkrahúsi í Þýskalandi. Heildarfjöldi tilfella nú orðinn um 450, þar af 8 dauðsföll.
Einkenni HABL eru flensu-lík:
1. hár hiti (> 38C)
2. öndunarfæraeinkenni, s.s. særindi í hálsi og þurr hósti, tíður andardráttur, andnauð
3. etv. líka höfuðverkur, vöðvaverkir, lystarleysi, þreyta, rugl, útbrot og/eða niðurgangur.
Meðgöngutími er talinn 2-7 dagar.
Hafi sjúklingur, sem kemur á LSH ofanskráð einkenni AUK
4. sögu um nýleg (innan síðustu tveggja vikna) ferðalög til landa, sem tilkynnt hafa um HABL tilfelli OG/EÐA
5. sögu um nána umgengni við einstakling með HABL skal strax setja veiruhelda grímu fyrir vit hans og setja í stranga einangrun (bæði loft- og snertismit).
Fyrirhugað er, að aðstaðan í austari helmingi gæsludeildar A-2 í Fossvogi verði notuð, komi til þessa. Þýddar hafa verið og staðfærðar nákvæmar leiðbeiningar um umönnun og umgengni við sjúklinga, sem unnar eru upp úr leiðbeiningum frá WHO: http://www.who.int/csr/surveillance/infectioncontrol/en/:
Leiðbeiningar um smitgát við móttöku og umönnun sjúklinga með grun um eða staðfest heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu (HABL).
Sjúklingar eru meðhöndlaðir skv. einkennum ("symptómatískt"), þar eð orsök sýkingarinnar er enn óþekkt. Einkenni geta í sumum tilfellum þróast yfir í bilateral lungnabólgu, sem jafnvel getur þróast yfir í bráða öndunarbilun ("acute respiratory distress"), þannig að sjúklingur þurfi að fara í öndunarvél.
Öll hugsanleg tilfelli skal strax tilkynna sýkingavarnadeild LSH, vakthafandi smitsjúkdómalækni og Sóttvarnalækni, sem síðan tilkynnir þau áfram til WHO, sem vinnur náið með heilbrigðisyfirvöldum allra landa og býður alla mögulega aðstoð, s.s. varðandi faraldsfræði, rannsóknir og meðferð.
Sjá einnig heimasíður
Sóttvarnalæknis: http://www.landlaeknir.is/template1.asp?PageID=1
Centers for Disease Control í BNA: http://www.CDC.gov
og WHO: http://www.WHO.int/en/