Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögur heilbrigðisráðherra um að auka þjónustu við börn og unglinga með geðraskanir, eins og fram kemur í eftirfarandi fréttatilkynningu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Þjónusta verður efld á barna- og unglingageðdeild (BUGL) og utan spítalans. Ríkisstjórnin samþykkti einnig að stefna að því að koma á fót deild fyrir geðsjúka en sakhæfa einstaklinga:
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögur Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, til að auka þjónustu við börn og ungmenni sem stríða við geðraskanir. Samþykkti ríkisstjórnin auk þess að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hæfi undirbúning að stofnun lokaðrar deildar fyrir alvarlega geðsjúka, en sakhæfa einstaklinga.
Tillögur heilbrigðismálaráðherra sem samþykktar voru í morgun og snúa börnum og ungmennum byggjast á hugmyndum sem forstjóri Landspítala setti fram í liðinni viku að frumkvæði ráðherra. Beinn kostnaður á árinu vegna tillagnanna sem strax verður hrundið í framkvæmd verður um 25 milljónir króna. Að mati heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra var brýnt að grípa strax til aðgerða til að bæta þjónustu við börn og unglinga með geðraskanir og að hrinda jafnframt í framkvæmd tillögum sem stuðla að varanlegum umbótum í þjónustunni.
Tillögurnar sem samþykktar voru til að auka þjónustuna við börn og ungmenni eru þríþættar:
- Komið verði á fót sérstöku tímabundnu teymi sem einbeiti sér að bráðatilvikum. Auk þess að sinna bráðatilvikum verði meginviðfangsefni hópsins að vinna á bráðabiðlistum unglingageðdeildar, heimsækja unglinga í vanda og veita sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu utan spítalans. Þá mun átakshópurinn greiða fyrir innlögn unglinga á unglingageðdeild í samráði við inntökustjóra og vakt barnageðlækna. Gert er ráð fyrir að áætlaður kostnaður vegna þessa þáttar verði um 20 milljónir króna á árinu 2003.
- Í árslok 2002 var veitt sérstök fyrirgreiðsla til að mæta þörfinni fyrir barnageðlæknisþjónustu utan stofnana. Tryggt verður að sú fjölgun greiðslueininga heldur sér á árinu 2003. Áætlaður kostnaður vegna þessa er um fimm milljónir króna.
- Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra mun í framhaldi af samþykkt ríkisstjórnarinnar hefja undirbúning að stækkun barna- og unglingageðdeildar og flutningi göngudeildar barna- og unglingageðdeildar. Með þessu verður fjölgað rúmum fyrir ungmenni í brýnni þörf og barna- og unglingageðdeildin stækku
Í ljósi þess vanda sem að barna- og unglingageðdeildinni steðjar og til þess að tryggja skilvirkni þjónustunnar til framtíðar hefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra ákveðið að láta fara fram stjórnsýsluskoðun á starfseminni.
Þá var samþykkt sú tillaga heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að hefja undirbúning að stofnun lokaðrar deildar fyrir alvarlega geðsjúka en sakhæfa einstaklinga. Er þetta gert í framhaldi af því starfi sem unnið hefur verið í ráðuneytinu nú í vetur á því hvernig auka mætti þjónustu við alvarlega geðsjúka en sakhæfa einstaklinga.
(Fréttatilkynning heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis 11. mars 2003)