Röntgendeildir Landspítala - háskólasjúkrahúss við Hringbraut og í Fossvogi sameinast formlega 1. mars 2003 undir heitinu myndgreiningarþjónusta LSH. Hún hefur stöðu sviðs við spítalann og sviðsstjóri er Ásbjörn Jónsson. Sjúkraskrársafn LSH heyrir jafnframt undir sviðsstjóra myndgreiningarþjónustu.
Markmið með þessum breytingum er að styrkja stjórnun á faglegum grundvelli, frekar en eftir mismundandi staðsetningu, sem og að gera kleift að laga myndgreiningarþjónustuna að þeim miklu breytingum sem orðið hafa á Landspítala - háskólasjúkrahúsi með tilflutningi og sameiningu hinna ýmsu sérgreina læknisfræðinnar.
Samkvæmt nýju skipuriti eru þrír yfirlæknar settir yfir faglega starfsemi en ekki staðsetningu eins og verið hefur:
1. Yfirlæknir stoðkerfismyndgreiningar, ísotópa og æðaþræðinga.
2. Yfirlæknir myndgreiningar, kviðarholssjúkdóma og krabbameinslækninga.
3. Yfirlæknir myndgreiningar barna, taugakerfis og brjóstholssjúkdóma.
Að auki eru
Einar H. Jónmundsson og
Örn S. Arnaldsson yfirlæknar án formlegrar stjórnunarskyldu.
Yfirlæknisstöðum Ásbjarnar Jónssonar, Ólafs Kjartanssonar og Péturs H. Hannessonar hefur verið breytt í samræmi við heimild í starfsmannalögum. Þannig er
Ásbjörn Jónsson yfirlæknir stoðkerfismyndgreiningar, ísotópa og æðaþræðinga,
Pétur H. Hannesson yfirlæknir myndgreiningar kviðarholssjúkdóma og krabbameinslækninga og
Ólafur Kjartansson yfirlæknir myndgreiningar barna, taugakerfis og brjóstholssjúkdóma.
Í samráði við Pétur H. Hannesson verður staða yfirlæknis myndgreiningar kviðarholssjúkdóma og krabbameinslækninga auglýst laus til umsóknar. Meðan Ásbjörn gegnir stöðu sviðsstjóra verður einn af sérfræðingum myndgreiningarþjónustunnar settur yfirlæknir tímabundið.
Jón Guðmundsson er settur yfirlæknir stoðkerfismyndgreiningar, ísotópa og æðaþræðinga frá og með 1. mars 2003 til eins árs.
Staða annarra starfseininga sem tilheyrðu klínísku þjónustusviði breytist í skipulagi Landspítala - háskólasjúkrahúss á eftirfarandi hátt:
Rannsóknastofa Háskólans í meinafræði - Verður rannsóknarstofa í meinafræði, í stjórnunartengslum við Blóðbankann.
Sýkingavarnadeild - verður á Rannsóknarstofnun LSH.
Næringarstofa - verður á skurðlækningasviði.
Sjúkrahústengd heimaþjónusta - verður á lyflækningasviði II.
Sálgæsla presta og djákna - verður á endurhæfingarsviði.