Stjórn Minningargjafasjóðs Landspítala Íslands afhenti fimmtudaginn 13. febrúar 2003 Landspítala - háskólasjúkrahúsi 35 milljónir króna til tækjakaupa. Fénu var aflað með sölu á samúðarkortum hjá Landssímanum síðastliðin 4 ár, svo og ávöxtun eigna sjóðsins. Framlög vegna samúðarkorta hafa í marga áratugi runnið í Minningargjafasjóð Landspítalans. Þannig hefur almenningur í landinu stuðlað að kaupum og endurnýjun á tækjakosti spítalans.
Meðal tækjabúnaðar sem fé Minningarsjóðs rennur til að þessu sinni er hita- og kælivél sem er notuð við hjartaaðgerðir, öndunarvélar á gjörgæsludeildir, Hermes samstæða fyrir kviðsjáraðgerðir, flæðimælir fyrir hjartaskurðlækningar, mónitorar fyrir vöknunar- og vöktunardeildir og hátíðni öndunarvél fyrir sjúklinga með bráða alvarlega lungnabilun.
Minningargjafasjóður Landspítala Íslands var stofnaður árið 1916. Í fyrstu var hlutverk hans að styrkja sjúklinga í fjárhagslegum vandræðum, seinna einnig sjúklinga sem gátu ekki fengið fullnægjandi læknishjálp hérlendis en þurftu að fara til sjúkradvalar í útlöndum. Frá árinu 1966 hefur Minningargjafasjóður Landspítalans styrkt tækjakaup á spítalanum. Tekjur sjóðsins myndast með minningargjöfum fólks sem sendir samúðarkort Landssímans og með ávöxtun höfuðstóls.
Í stjórn Minningargjafasjóðs Landspítala Íslands eru, frá vinstri á myndinni:
Drífa Pálsdóttir skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, formaður
Vilhelmína Salbergsdóttir skrifstofustjóri í Kvennaskólanum
Þorbjörg Guðnadóttir sviðsstjóri á Landspítala - háskólasjúkrahúsi, gjaldkeri
Kristín E. Jónsdóttir fyrrverandi læknir á Landspítalanum
Vigdís Magnúsdóttir fyrrverandi forstjóri Landspítalans, ritari