Landspítali - háskólasjúkrahús (www.landspitali.is) og Taugagreining hf (www.nervus.is) hafa gert með sér samstarfssamning á sviði taugarannsókna sem markar tímamót á sviði rannsókna og þróunar lækningatækja til heilarannsókna hérlendis.
Með samningnum hefst samstarf þar sem ný tækni til heilaeftirlits verður sannreynd og prófuð kerfisbundið á gjörgæslu-, skurð- og taugadeildum. Samstarfinu er ætlað að leiða til þróunar nýrra tækja og aðferða sem munu bæta enn frekar meðferð á sviði taugalækninga og gjörgæslu.
Um Taugagreiningu hf
Taugagreining hf hannar NERVUS kerfið sem er hugbúnaður og vélbúnaður fyrir heilarannsóknir. Hjá fyrirtækinu starfa tæplega 20 manns . Taugagreining hefur þróað heilaritstæki sem er notuð til greiningar á flogaveiki og öðrum truflunum á starfsemi heilans. Tækið, sem er einkum selt til taugadeilda sjúkrahúsa, hefur skipað sér öruggan sess erlendis og er nú nánast staðalbúnaður til upptöku og lesturs heilarits á Norðurlöndum.
Á árinu 2001 kynnti félagið nýja vöru sem veldur byltingu í almennu eftirliti á starfsemi og ástandi heilans á sjúklingum sem eru undir stöðugu eftirliti á gjörgæsludeildum. Hið nýja tæki kemur til dæmis að notum við meðferð sjúklinga sem koma á sjúkrahús af völdum höfuðáverka, heilablóðfalls, heilablæðingu og krampafloga.
Taugagreining hefur frá árinu 1992 selt yfir 3000 heilaritskerfi til sjúkrahúsa yfir 60 löndum.
Um Landspítala - háskólasjúkrahús
Landspítali - háskólasjúkrahús (LSH) stefnir að auknu samstarfi við fyrirtæki á vettvangi heilbrigðistækni og vill þannig legga fram aðstöðu til að byggja upp þekkingariðnað á Íslandi. Samstarfssamningurinn við Taugagreiningu fellur vel að þeirri stefnu LSH.
Mynd: Egill Másson framkvæmdastjóri Taugagreiningar hf. og Magnús Pétursson forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss undirrituðu samsstarfssamning fyrirtækisins og sjúkrahússins.