Barnaspítali Hringsins var opnaður með viðhöfn í anddyri hans sunnudaginn 26. janúar 2003. Meðal viðstaddra voru forseti Íslands, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík. Ávörp fluttu Hjálmar Árnason formaður byggingarnefndar, Ólafur Friðriksson byggingaverktaki, Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Magnús Pétursson forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss, Ásgeir Haraldsson prófessor og forstöðumaður fræðasviðs á Barnaspítalanum og Áslaug Viggósdóttir formaður Hringsins.
Fyrir athöfnina lék Guitar Islandico. Í athöfninni sjálfri söng Drengjakór Neskirkju, undir stjórn Friðriks S. Kristinssonar, við undirleik Reynis Jónassonar.
Við opnunarathöfnina færðu Magnús Pétursson forstjóri LSH og Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra Hringskonum að gjöf gamalt píanó. Þetta píanó tengist sögu Hringsins og þótti við hæfi að þeim yrði fært það í tilefni dagsins. Jafnframt var Hringskonum flutt nýtt ljóð, Barnaspítali Hringsins, eftir Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra við nýtt lag Hrafns Pálssonar deildarstjóra í heilbrigðisráðuneytinu og útsetningu Ólafs Gauks. Söngfólk undir stjórn Garðars Cortes söng lagið.
Biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, blessaði síðan nýjan Barnaspítala Hringsins og fór með bæn.
Kynnir við opnun Barnaspítala Hringsins var Jón Baldvin Halldórsson upplýsingafulltrúi Landspítala - háskólasjúkrahúss.
Að athöfn lokinni var gestum boðið að þiggja veitingar og ganga um nýjan Barnaspítala Hringsins undir leiðsögn starfsmanna þar. Í nýjum fyrirlestrasal er sýning með myndum um starfsemi barnasviðs og byggingu Barnaspítala Hringsins. Nýjað húsið er almenningi sýnist frá kl. 14:00 til 18:30.
Opnun Barnaspítala Hringsins 26. janúar 2003 - vídeó