Verið er að leita heimildar í fjárlögum vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar við Blóðbankann. Málið hefur bæði verið á dagskrá framkvæmdastjórnar sjúkrahússins og stjórnarnefndar. Kostnaður er áætlaður 250 m.kr., að meðtöldum kostnaði við endurbætur á núverandi húsnæði. Málið hefur verið unnið í samráði við Framkvæmdasýslu ríkisins og er hugmynd að vinna verkið í einkaframkvæmd. Meðfylgjandi er greinargerð vinnuhóps sem skipaður var til að kanna hvernig mætti leysa úr húsnæðisvandræðum Blóðbankans.
Greinargerð vinnuhóps vegna húsnæðis Blóðbankans
Skipan vinnuhóps
Með bréfi dagsettu 20. júní sl. setti forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss undirritaða í vinnuhóp til þess að kanna leiðir til úrbóta í húsnæðismálum Blóðbankans. Sérstaklega skyldi kanna möguleika á að reisa viðbyggingu við Blóðbankann.
Óskað var eftir að fyrsta athugun þessa máls lægi fyrir ekki síðar en í lok október 2002.
Við vinnu sína hafði vinnuhópurinn til hliðsjónar þarfagreiningu sem unnin hefur verið af starfsmönnum Blóðbankans. Þá var leitað að fyrirmyndum á Norðurlöndum og Írlandi. Teiknistofa Halldórs Guðmundssonar var ráðin til þess að setja fram hugmyndir að viðbyggingu og til samskipta við skipulagsyfirvöld í samráði við vinnuhópinn. Þá vann Aðalsteinn Pálsson með vinnuhópnum að þróun hugmynda.
Núverandi aðstaða Blóðbankans
Nýstofnaður Blóðbanki hóf starfsemi sína í núverandi húsnæði árið 1953. Á þeim tíma sem liðinn er frá stofnun Blóðbankans hafa allar starfsaðferðir breyst, starfsemi stóraukist og alþjóðlegar kröfur til blóðbankaþjónustu tekið stórstígum breytingum. Um blóðbankastarfsemi gilda svonefndar reglur um "good manufacturing practice" (GMP), sem í mörgu tilliti svipar mjög til starfsumhverfis lyfjaframleiðslu, þó með mikilvægum undantekningum.
Á síðustu árum hefur Blóðbankanum reynst ómögulegt að uppfylla skilyrði GMP í starfi sínu, þó reynt hafi verið til hins ítrasta að taka mið af þeim reglum. Stærstu frávik núverandi húsnæðis eru á sviði aðskilnaðar ákveðinna rýma, s.s. blóðhlutavinnslu frá öðrum starfseiningum. Sömuleiðis er ekki mögulegt að viðhalda eðlilegu flæði starfseminnar mtt. krafna GMP-staðalsins. Þarfagreining gerir ráð fyrir því að takmarka megi aðgengi utanaðkomandi aðila á tilteknum svæðum Blóðbankans. Ennfremur er mikilvægt að loftkæling og loftræsting tiltekinna rýma uppfylli skilmerki. Almenn öryggismál núverandi húsnæðis eru ófullnægjandi. Rými sérvinnslu blóðhluta s.s. plasmafrystingar, hvítkornasíunar og framleiðslu nýburaeininga er ófullnægjandi.
Allmargar athugasemdir Vinnueftirlits hafa komið á síðustu árum varðandi vinnurými starfsmanna.
Mikilvægt er að Blóðbankinn bjóði upp á vistlega, örugga og nútímalega aðstöðu fyrir blóðgjafana. Blóðgjafar á Íslandi eru sjálfboðaliðar sem veita ómetanlega þjónustu við íslenska heilbrigðisþjónustu. Á síðustu árum hefur Blóðbankinn lagt megináherslu á að skapa blóðgjöfum betri aðstöðu, og gert það á kostnað annars rýmis. Því hafa skapast þrengsli fyrir aðra starfsemi. Þó er aðstaða blóðgjafa mjög þröng og óhentug á ýmsum sviðum. Þannig er td. hvíldaraðstaða blóðgjafa sem kenna vanlíðunar eftir blóðgjöf staðsett inni í kaffistofu blóðgjafa.
Mikilvæg tæki til blóðflokkunar, veiruskimunar og gæðaeftirlits eru í þröngri aðstöðu, sem hefur valdið miklum vandræðum vegna hitamyndunar, hávaðamengunar og bágrar aðstöðu starfsmanna sem við þau starfa.
Mikilvægustu starfseiningar Blóðbankans eru (1) hefðbundin blóðbankastarfsemi (2) gæðaeftirlit (3) rannsóknir og þjónusta á sviði stofnfrumna (4) vefjaflokkanir.
Á starfssviðum (2)-(4) hefur Blóðbankinn litið til jákvæðra margfeldisáhrifa af samstarfi við aðrar starfseiningar LSH. Ber þar fyrst að nefna samstarf við blóðsjúkdómadeild, rannsóknarstofu HÍ í meinafræði ofl. deildir á sviði stofnfrumurannsókna. Vilji er til að byggja upp miðlæga rannsóknar- og þjónustuaðstöðu á þessu sviði innan Blóðbankans, með aðstöðu fyrir samstarfsaðila á sviði frumuræktunar, frumuflæðissjá, DNA-rannsóknir ofl. Í öðru lagi má nefna starfsemi vefjaflokkunardeildar, þar sem sérstaklega er litið til aukins samstarfs við rannsóknarstofu HÍ í meinafræði, sérlega sameindalíffræðideild , en auk þess DNA-greiningar í æxlum með frumuflæðissjá. Blóðbankinn hefur yfir að ráða fullkomnustu frumuflæðissjá hér á landi með "sorteringu", auk aðstöðu fyrir DNA-greiningu, auk raðgreinis. Blóðbankinn sér fram á mikilvæga samstarfsmöguleika við rannsóknarstofu HÍ í meinafræði (og aðra aðila) á þessu sviði. Markmiðið er að auka samnýtingu tækja og mikilvægs sérþjálfaðs starfsfólks. Viðræður hafa átt sér stað milli þessara aðila, og er áhugi fyrir áframhaldi þeirra viðræðna í ljósi bættrar aðstöðu. Gera má ráð fyrir samnýtingu húsnæðis í uþb. 3-400 fermetrum vegna þessara þátta. Að auki er vilji beggja aðila að skoða möguleika á samvinnu hvað varðar lífsýnasafn, ef aðstaða verður sköpuð fyrir það.
Það er því ljóst að jafnframt því að bæta úr brýnum og aðkallandi húsnæðisvanda vegna starfsemi Blóðbankans, er opnað á viðræður um aukið samstarf fjölmargra starfseininga innan LSH, í takt við stefnu sjúkrahússins um bestu mögulegu nýtingu húsnæðis, tækja og sérhæfðra starfsmanna.
Kynning fyrir skipulagsyfirvöldum og Framkvæmdasýslu ríkisins
Tillögur vinnuhópsins voru í tvígang lagðar fyrir skipulagsnefnd Reykjavíkur og fengu jákvæða umsögn. Næsta skref í því ferli er að gera deiliskipulag af norðurhluta lóðarinnar, kynna það og leita samþykkis. Vinnuhópnum þótti því ágæt skil nú í verkefninu, að kynna stöðuna og leita samþykkis fyrir áframhaldi.
Þá var verkefnið kynnt fyrir forstjóra Framkvæmdasýslu ríkisins og tilhögun hugsanlegra framkvæmda rædd. Fram kom í máli forstjórans að eðlilegast væri að þetta verkefni væri unnið í einkaframkvæmd, þe. að einkaaðili byggði húsið og leigði það Blóðbankanum til langs tíma. Hins vegar er eðlilegt að spítalinn eignist húsið að loknum leigutímanum eða ætti þess kost þar sem það er innan lóðar spítalans.
Frumdrög að byggingu, framkvæmda- og kostnaðaráætlun
Teikningar af byggingunni fylgja í sérstöku hefti. Bygging sú sem vinnuhópurinn lét teikna og kynna fyrir skipulagsyfirvöldum er 992 fm en núverandi húsnæði Blóðbankans er 654 fm.
Unnin var kostnaðaráætlun fyrir verkefnið, bæði nýbygginguna og breytingar á eldra húsnæði.
Árlegur leigukostnaður er af stærðargráðunni 10 – 12% af stofnkostnaði eða um 25 – 30 mkr á ári. Athugandi er að gamla hús Blóðbankans verði selt verktakanum og það síðan leigt eftir endurbæturnar til langs tíma með sömu skilyrðum og nýbyggingin.
Framkvæmdaáætlun fyrir verkið gerir ráð fyrir 18 mánaða verktíma frá því ákvörðun er tekin um að ráðast í gerð deiliskipulags. Húsið gæti því verið tilbúið á vormánuðum 2004.
Tillögur vinnuhópsins
1. Byggt verði við Blóðbankann í samræmi við meðfylgjandi tillöguteikningar.
2. Þegar uppbyggingu neðan Hringbrautar er lokið verði húsnæði Blóðbankans nýtt fyrir aðra starfsemi spítalans eða selt.
3. Leita verði heimildar í fjárlögum 2003 til leigu húsnæðis (einkaframkvæmd) fyrir Blóðbankann.
4. Miðað verði við leigu á nýbyggingu og endurgerðu eldra húsi til langs tíma og að spítalinn eignist húsin að loknum leigutímanum.
5. Unnið verði að gerð deiliskipulags fyrir þennan hluta lóðarinnar og aflað samþykkis fyrir því.
6. Sett verði strax af stað vinna við ítarlega þarfagreiningu Blóðbankans og samnýtingu húsnæðis með Rannsóknastofu Háskólans og gerð útboðsgagna fyrir einkaframkvæmd.
7. Verkinu verði hagað þannig að Blóðbankinn geti flutt í nýtt hús fyrrihluta 2004.
Friðrik Pálsson
Ingólfur Þórisson
Sveinn Guðmundsson