Alla síðustu daga hefur verið mikil þörf fyrir blóð á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Miklar og flóknar aðgerðir hafa fyrirvaralítið skapað þörf fyrir blóðhluta; rauðkorn, blóðvökva (plasma) og blóðflögur. Síðustu helgi, alla þessa viku og aðfaranótt fimmtudagsins hafa blóðgjafar brugðist vel við kalli starfsfólks Blóðbankans og streymt inn til að gefa blóð. Notkun blóðs síðustu vikuna hefur verið 100% meiri en meðalnotkun blóðs er í venjulegri viku. Nokkrir sjúklingar hafa þurft mikið magn blóðhluta og hefur það kallað á mikla notkun á skömmum tíma.
Til að svara sveiflum í blóðhlutanotkun og tryggja öryggi sjúklinga leitast Blóðbankinn við að eiga u.þ.b. 600 einingar af rauðkornum á lager (í varabirgðum). Þessar varabirgðir jafngilda u.þ.b. 2ja vikna notkun á blóðhlutum. Þegar nokkrir sjúklingar þurfa á nokkrum dögum sem samsvarar rúmlega viku notkun blóðhluta þá skerðast blóðbirgðirnar með afgerandi hætti. Um síðustu helgi voru varabirgðir Blóðbankans komnar niður fyrir 400 einingar af rauðkornum. Í dag eru varabirgðirnar tæplega 500 einingar af rauðkornaþykkni. Markmið Blóðbankans er að ná varabirgðum rauðkorna upp fyrir 600 einingar. Blóðhlutar eru notaðir við allar mikilvæga meðferð á sjúkrahúsum landsins, liðskiptaaðgerðir, kviðarholsaðgerðir, krabbameinsmeðferð,nýburalækningar, barnalækningar, hjartaaðgerðir, æðaskurðlækningar og margt fleira.
Víða um heim hefur skapast mikill skortur á blóði og blóðgjöfum, annaðhvort tímabundið eða svæðisbundið. Þetta hefur leitt til þess að í Bandaríkjunum hefur oft þurft að fresta valaðgerðum (af biðlistum) um langan tíma. Til slíks hefur aldrei þurft að koma hér á landi og er þar fyrst og fremst að þakka mikilvægu framlagi íslenskra blóðgjafa, sem hafa staðið vel við bakið á Blóðbankanum í starfi hans. Víða í Bandaríkjunum hafa sjúkrahús ekki haft meira en 2ja-3ja daga birgðir blóðs til afnota, meðan á Íslandi hafa verið tiltækar u.þ.b. 2ja vikna birgðir. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt hér á landi vegna landfræðilegrar einangrunar landsins sem gerir okkur ekki kleift að kalla eftir blóðhlutabirgðum frá nágrannablóðbanka með engum fyrirvara, eins og hægt er um gjörvallt meginland Evrópu og Bandaríkin. Mikilvægi þess að eiga sterkan hóp blóðgjafa hefur því margsannað gildi sitt á liðnum árum og ekki síst á miklum annatímum líkt og síðasta vika hefur verið.
Blóðbankinn þakkar öllum blóðgjöfum stuðninginn á síðustu vikum.