Landspítali - háskólasjúkrahús tekur í notkun nýja sjúkrabílamóttöku við slysa- og bráðadeild í Fossvogi föstudaginn 22. nóvember 2002. Þetta er 1. áfangi í endurnýjun deildarinnar. Nýja byggingin kemur í stað annarrar eldri sem var orðin mjög léleg eða allt að því ónýt. Þröngt var um alla aðstöðu, auk þess sem dyrnar voru það litlar að sjúkrabílar af nýrri gerðum gátu vart komist þar inn. Byggð var ný móttaka frá grunni og er hún um 190m². Móttakan rúmar 4 sjúkrabíla og þar er geymsla og lageraðstaða fyrir búnað bílanna og fyrir búnað við flutning sjúklinga frá þyrlupalli. Einnig hefur verið komið upp skolaðstöðu fyrir afeitranir vegna efna- og sýklaeitrana ásamt því að tenging við sjálfa slysa- og bráðamóttökuna hefur verið endurbætt.
Nýja sjúkrabílamóttakan bætir mjög alla aðstöðu sjúkraflutningamanna og sjúklinga sem koma inn á slysa- og bráðadeild í Fossvogi. Til þessa hefur við illan leik verið hægt að koma fjórum sjúkrabílum inn í móttökuna en færa sjúklinga úr aðeins tveimur þeirra í einu. Núna verður auðveldlega hægt að taka úr fjórum bílum jafnt. Þannig mun móttakan nýtast vel við öll stærri slys þegar þarf að taka við fjölda slasaðra. Í móttökunni verður líka hægt að grófskola sjúklinga sem eru með kemísk efni á sér. Þá verður hægt að breyta byggingunni í nokkurs konar móttökustöð í stórslysum en slíkt var varla hægt vegna kulda í gömlu móttökunni.
Verkið var boðið út í lok júní og hófust framkvæmdir í byrjun ágúst. Verktaki við bygginguna var Markhús ehf og hönnuðir Teiknistofa Halldórs Guðmundssonar, Almenna verkfræðistofan hf, Fjarhitun hf og Rafteikning hf. Heildarkostnaður við bygginguna er um 43 milljónir króna.