Háskólaráð hefur sett reglur um viðurkenningu H.Í. á akademísku hæfi starfsmanna á LSHog hafa þær verið sendar til birtingar í Stjórnartíðindum. Reglurnar eru settar samkvæmt ákvæði í samstarfssamningum Háskóla Íslands (H.Í.) og Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH) um að háskólamenntaðir starfsmenn spítalans geti sótt um viðurkenningu á akademísku hæfi sínu og fengið akademíska nafnbót.
Spurningar og svör varðandi reglurnar:
Hverjir geta sótt um?Allir háskólamenntaðir starfsmenn LSH sem gegna klínískum eða paraklínískum störfum geta sótt um viðurkenningu og nafnbót. Tvö skilyrði eru þó sett fyrir umsókn:
a) Að starfsmaðurinn sé í a.m.k. 70% starfshlutfalli á spítalanum þegar hann sækir um.
b) Að starfsmaðurinn sé ekki jafnframt spítalastarfinu í starfi háskólakennara eða sérfræðings við H.Í. þar sem hæfnisdóms er krafist. Hér er átt við starfsheitin lektor, dósent, prófessor, sérfræðingur, fræðimaður og vísindamaður við Háskólann. Til dæmis myndi læknir á sjúkrahúsinu sem jafnframt er lektor eða dósent í hlutastarf við læknadeild ekki geta sótt um, enda á hann þess kost að sækja um framgang milli starfsheita í Háskólanum samkvæmt reglum sem um það gilda.
Hvaða skilyrði þarf umsækjandi að uppfylla?
Það lágmarksskilyrði er alltaf sett að viðkomandi hafi lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafi jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar. Kandídatspróf telst jafngilt meistaraprófi að þessu leyti. Að auki þarf viðkomandi að hafa tekið virkan þátt í háskólastarfsemi innan spítala eða háskóla, þ.e. rannsóknum, kennslu og þróunarstarfi.
Hver er munurinn á akademísku hæfi og akademískri nafnbót?
Viðurkenning á akademísku hæfi merkir að viðkomandi hafi verið metinn með tilliti til þeirra hæfniskrafna sem gerðar eru vegna starfa við háskóla, og að hann hafi staðist þær. Þessar hæfniskröfur byggja á alþjóðlegum viðmiðum um eftirfarandi þætti að teknu tilliti til menntunar viðkomandi:
1. árangur í rannsóknum,
2. árangur í kennslu og leiðbeiningu háskólanema,
3. þátttaka í stjórnun.
Mat á þessum þáttum fer fram samkvæmt samræmdum, fyrirframgefnum forsendum þar sem megináhersla er lögð á gæði og virkni. Fleiri sjónarmið geta komið til skoðunar eftir því um hvaða fræðasvið er að ræða.
Akademísk nafnbót er veitt á grundvelli matsins og fer eftir því hversu vel viðkomandi stenst þær hæfniskröfur sem gerðar eru til starfsheita háskólakennara. Sá sem uppfyllir lágmarksskilyrði fær nafnbótina klínískur lektor, en sá sem uppfyllir frekari skilyrði á kost á nafnbótinni klínískur dósent. Sá sem stenst ítrustu kröfur sem gerðar eru innan háskólasamfélagsins og uppfyllir aukin menntunarskilyrði á möguleika á nafnbótinni klínískur prófessor.
Í hvaða tengslum við Háskólann eru nafnbótarhafar?
Akademískum nafnbótum er ætlað að styrkja samstarf LSH og H.Í. og efla háskólastarfsemi sem báðar stofnanir standa fyrir. Nafnbót er því yfirleitt veitt í tengslum við einhverja af heilbrigðisvísindadeildum H.Í., þ.e. læknadeild, hjúkrunarfræðideild, tannlæknadeild eða lyfjafræðideild, en heimilt er ennfremur að veita nafnbót við aðra háskóladeild þar sem fyrir hendi eru tengsl milli starfa á spítalanum og fræðasviða innan Háskólans, til dæmis í félagsvísindum.
Nafnbót fellur niður láti nafnbótarhafi af störfum við LSH.
Aðstæður eru nokkuð mismunandi milli fræðasviða og þess vegna fer það eftir reglum hverrar háskóladeildar hvaða tengsl við deildina fylgja nafnbót. Hér er til dæmis um að ræða hvort nafnbótarhafi eigi seturétt á deildarfundum eða komi að störfum nefnda innan deildarinnar.
Er sá sem fær nafnbót þar með orðinn starfsmaður Háskóla Íslands?
Taka verður skýrt fram að akademísk nafnbót verður ekki lögð að jöfnu við ráðningu í starf hjá Háskóla Íslands. Nafnbótin er veitt út á starf hjá spítalanum og mat á hæfi þess starfsmanns sem starfinu gegnir í samræmi við sérstakar reglur sem háskólaráð hefur sett. Ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gilda því ekki að neinu leyti um nafnbætur.
Hver eru helstu réttindi og skyldur sem fylgja nafnbót?
Nafnbótarhafa er frjálst að nota nafnbótina í þágu starfa fyrir LSH og H.Í. enda sé þess gætt að upplýsa eftir því sem við á, að um nafnbót er að ræða en ekki starf.
Reglur háskólaráðs um nafnbæturnar gera ráð fyrir að hverju sinni verði gerður samningur milli nafnbótarhafa og þeirrar háskóladeildar sem hann tengist um þau réttindi og skyldur sem nafnbót hans fylgja. Í þeim samningi skal kveðið að nafnbótarhafi skili inn árlegri skýrslu um rannsóknavirkni sína.
Eins og áður greinir verður nafnbót ekki lögð að jöfnu við ráðningu í starf við H.Í. Þess vegna fylgir nafnbótinni ekki réttur til þess að sækja um framlög úr sjóðum H.Í. sem ætlaðir eru starfsmönnum Háskólans.
Hvernig er sótt um?
Um miðjan desember birtist tilkynning til starfsmanna LSH þar sem fram kemur að tekið sé við umsóknum um viðurkenningu og nafnbót til loka janúarmánuðar á eftir. Sá sem sækir um, gerir það með því að senda umsókn til þeirrar háskóladeildar sem starf hans tengist fyrst og fremst.
Með umsókn skal fylgja rækileg skýrsla um vísindastörf sem umsækjandi hefur unnið, ritsmíðar og rannsóknir, svo og vottorð um námsferil og störf. Með umsókninni eru send þrjú eintök af vísindalegum ritum og ritgerðum – birtum og óbirtum – sem umsækjandi óskar eftir að verði metin. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að ritverki þarf umsækjandi að gera grein fyrir sínu framlagi til verksins.
Þá þarf umsækjandi einnig að láta fylgja með umsókn, umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín, eftir því sem við á.
Umsækjandi sækir ekki um tiltekna nafnbót (klínískur lektor o.s.frv.). Það ræðst af mati á því hvaða kröfur hann stenst, hvaða nafnbót hann á tilkall til.
Er fjöldi nafnbóta takmarkaður?
Fjöldi nafnbóta er ekki takmarkaður og mun að jafnaði fara eftir því hve margir sækja um og eru metnir hæfir. Þetta hæfnismat er í höndum sjö manna dómnefndar sem fjallar um allar umsóknirnar og því er það háð takmörkunum hversu margar umsóknir nefndin getur afgreitt hverju sinni. Af þeim sökum er í reglum um nafnbæturnar heimild til þess að flokka umsóknir, þannig að öruggt sé að ljúka megi umfjöllun um þær innan eðlilegra tímamarka, sem miðað er við að séu fjórir mánuðir.
Hvað tekur við eftir að umsókn hefur verið skilað?
Þegar fyrir liggur eftir lok umsóknarfrests, hve margar umsóknir deild hefur fengið til meðferðar, er tekin ákvörðun um meðferð þeirra. Ef mikill fjöldi umsókna berst er deild heimilt að flokka umsóknir á grundvelli akademískra sjónarmiða. Í þessu felst einskonar forval umsókna af hálfu deilda en það þýðir að þær umsóknir verða þá teknar til áframhaldandi meðferðar, sem bera með sér mesta virkni í háskólastarfi.
Umsókn sem ekki er tekin til áframhaldandi meðferðar, er endursend ásamt greinargóðum rökstuðningi.
Hver metur umsóknirnar?
Dómnefnd, skipuð af rektor, metur umsóknir, og skilar niðurstöðu sinni um það hvort umsækjandi uppfyllir skilyrði fyrir því að fá viðurkenningu á akademísku hæfi og hvaða nafnbót honum beri.
Ef dómnefnd telur að frekari gögn þurfi til þess að leggja megi mat á umsókn sendir hún bréf til umsækjenda með beiðni þar að lútandi.
Þegar dómnefnd hefur lokið umfjöllun um umsókn, sendir hún dómnefndarálit til rektors. Umsækjandi fær dómnefndarálitið þá í hendur og hefur tækifæri til þess að gera athugasemdir við það. Athugasemdir umsækjanda eru skoðaðar og geta leitt til þess að efni og niðurstöðu dómnefndarálits sé breytt.
Endanlegt dómnefndarálit er sent til þeirrar deildar sem tók á móti umsókn. Deildin gerir tillögu til rektors um hvort gefa skuli út viðurkenningu á akademísku hæfi umsækjanda og hvaða akademíska nafnbót skuli veita. Deild er ekki bundin af niðurstöðu dómnefndar, en ef deild er ósammála dómnefnd skal tillagan til rektors vera rökstudd.
Hver er það sem formlega veitir nafnbótina?
Þegar tillaga deildar liggur fyrir leggur rektor tillöguna fyrir háskólaráð. Fallist háskólaráð á að viðurkenna akademískt hæfi, fær umsækjandinn þá akademísku nafnbót sem deildin hefur samþykkt.
Rektor gefur út skjal til staðfestingar á niðurstöðu háskólaráðs og deildar um viðurkenningu á akademísku hæfi og veitingu akademískrar nafnbótar.
Hvað gildir viðurkenningin lengi?
Viðurkenningin, og nafnbótin sem byggist á henni, gildir í fimm ár frá útgáfu viðurkenningarskjals. Nafnbótin fellur niður láti nafnbótarhafi af starfi við LSH.
Við lok fimm ára tímabilsins getur nafnbótarhafi sótt um að nýju. Það getur hann einnig gert hvenær sem er á tímabilinu, ef forsendur mats á hæfi hans hafa breyst verulega.