Landspítali - háskólasjúkrahús
Skrifstofa forstjóra
8. maí 2001
Vordagar Landspítala - háskólasjúkrahúss 10. maí 2001
Dagskráin Vordagar Landspítala - háskólasjúkrahúss verður í fyrsta sinn haldin nú í maí. Stefnt er að því að Vordagar verði framvegis árlegur viðburður með ársfundi spítalans og kynningu á fjölbreyttri starfsemi stofnunarinnar.
Dagskrá 10. maí 2001:
Dr. Miles F. Shore prófessor við Harvard fjallar um breytingar í umhverfi heilbrigðisfyrirtækja á morgunverðarfyrirlestri í Víkingasal Hótels Loftleiða kl. 8:30 til 10:00. Skráningu til að hlýða á fyrirlesturinn lauk 8. maí og er fullbókað.
Vísindi á Vordögum er yfirskrift sýningar á veggspjöldum og kynningar á rannsóknarverkefnum starfsfólks, í K-byggingu Landspítala Hringbraut.
Kynningin hefst klukkan 13:00 og eru allir velkomnir, starfsfólk spítalans og aðrir, meðan húsrúm leyfir. Veggspjöldin eru á fjórða tug en þrjú verkefni verða kynnt:
1. Prófessor Karl G. Kristinsson yfirlæknir: Börn og pneumókokkar.
2. Ísleifur Ólafsson forstöðumaður: Rannsókn á erfðum heyrnarskerðinga.
3. Hjalti Guðmundsson læknanemi: Erfðir langlífis á Íslandi - rannsókn í vinnslu.
Ársfundur. Að lokinni dagskránni Vísindi á Vordögum hefst ársfundur Landspítala - háskólasjúkrahúss í K-byggingu, klukkan 14:30. Guðný Sverrisdóttir formaður stjórnarnefndar flytur skýrslu hennar og lagðir verða fram og skýrðir ársreikningar stofnunarinnar. Einnig verða starfsmenn spítalans heiðraðir fyrir vel unnin störf
Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra flytur ávarp á ársfundinum.